Fréttaskýring: Fjölmiðlalögin fóru ekki í þjóðaratkvæði

Reuters

Fjölmiðlafrumvarpið sem Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, synjaði staðfestingar 2004 var ekki lagt fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu. Lögin voru afnumin með nýjum lögum sem ríkisstjórn og Alþingi stóðu að. Fjölmiðlafrumvarpið er eina málið sem forseti Íslands hefur synjað staðfestingar, þar til nú, þannig að ekki hefur komið til þess að frumvarp hafi farið í þjóðaratkvæðagreiðslu eftir synjun forseta.

Ólafur Ragnar kynnti ákvörðun sína um að synja fjölmiðlafrumvarpinu staðfestingar á blaðamannafundi á Bessastöðum 2. júní 2004. Hann hafði fengið lögin til staðfestingar daginn áður. Í yfirlýsingu rökstuddi hann ákvörðun sína meðal annars með því að vísa til mikilvægis fjölmiðla og mikilvægis þess að lagasetning um þá styddist við víðtæka umræðu í samfélaginu og að almenn sátt væri um vinnubrögð og niðurstöðu. „Því miður hefur skort á samhljóminn sem þarf að vera milli þings og þjóðar í svo mikilvægu máli. Fjölmiðlarnir eru sá hornsteinn í lýðræðisskipan og menningu okkar Íslendinga að ekki er farsælt að varanlega verði djúp gjá milli þingvilja og þjóðarvilja. Slíka gjá þarf að brúa,“ sagði forsetinn.

Fjölmiðlalög afnumin

Ólafur Ragnar fékk annað tækifæri til að staðfesta fjölmiðlafrumvarp, það var í lok júlí þegar hann staðfesti lögin sem felldu úr gildi fjölmiðlalögin frá því í byrjun júní. Þá hafði ríkisstjórnin hætt við að leggja fram nýtt og breytt frumvarp um eignarhald á fjölmiðlum.

Ólafur Ragnar hefur í nokkur skipti gefið út sérstakar yfirlýsingar þegar hann hefur staðfest lög. Það gerði hann þegar öryrkjamálið svonefnda kom til staðfestingar 2001 og fyrra frumvarpið um ríkisábyrgð vegna Icesave.

Vigdís Finnbogadóttir, forveri Ólafs Ragnars á forsetastóli, gaf yfirlýsingu í ríkisráði 13. janúar 1993, þegar hún staðfesti lagafrumvarp um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Þá höfðu forseta borist áskoranir frá fjölda Íslendinga um að undirrita ekki frumvarpið. Hún lagði áherslu á mikilvægi þess að forsetaembættið væri samnefnari fyrir þjóðina, tákn sameiningar en ekki sundrungar. „Glöggt vitni um það eðli embættisins er að enginn forseti hefur gripið fram fyrir hendur á lýðræðislega kjörnu Alþingi sem tekið hefur ákvarðanir sínar með lögmætum hætti,“ sagði Vigdís.

Hún sagði síðar í viðtalsbók Ásdísar Höllu Bragadóttur að með því að neita að skrifa undir samninginn hefði hún verið að lýsa yfir stríði á hendur Alþingi og ríkisstjórn. „Í þjóðaratkvæðagreiðslu hefði aldrei verið hægt að greina á milli um hvað hefði verið kosið, EES-samninginn eða ríkisstjórnina.“


Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert