Matsfyrirtækið Moody's telur að ákvörðun forseta Íslands um að staðfesta ekki ríkisábyrgð vegna Icesave-skuldbindinganna hafi óljós áhrif á fjármögnun ríkisins þó að ljóst sé að hún muni torvelda leið Íslendinga út úr efnahagskreppunni.
Fram kemur í fréttatilkynningu frá Moody's, sem var send út rétt áðan, að fjármögnun íslenskra stjórnvalda sé nægilega styrk til þess að standa af sér tímabundna óvissu án þess að það leiði til lækkun lánshæfismats. Lánshæfiseinkunn Moody's er Baa3 og eru því skuldabréf ríkisins fjárfestingahæf samkvæmt því.
Matsfyrirtækið Fitch Ratings lækkaði í gær einkunn íslenska ríkisins niður í ruslflokk vegna ákvörðunar forsetans um að synja lögunum staðfestingar. Sagði fyrirtækið, að það liti á samkomulag við Breta og Hollendinga um Icesave sem grundvallarþátt í endureisnaráætlun Íslands. Matsfyrirtækið S&P hélt hinsvegar að sér höndum og lét duga að breyta horfunum með lánshæfið úr stöðugum yfir í neikvæðar. Segja má að viðbrögð Moody's séu sambærileg við þau hjá S&P.Í fréttatilkynningu Moody's kemur fram að verði Icesave-lögunum hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu þýði það ekki beinlínis að ríkið muni ekki ábyrgjast Icesave-skuldbindingar gagnvart hollenskum og breskum stjórnvöldum. Bent er á að ríkisábyrgðin sé nú þegar til staðar og hafi komið til þegar Alþingi samþykkti hana í ágúst. Moody's tekur sérstaklega fram að lögin sem forsetinn hafi hafnað hafi verið önnur og í raun málamiðlun sem hafi verið sett fram eftir að hollensk og bresk stjórnvöld höfnuðu fyrirvörum samningsins sem Alþingi samþykkti í sumar.
Moody's segir óljóst hvert framhaldið verði og til hvaða aðgerða hollensk og bresk stjórnvöld munu grípa. Fram kemur að þau geti sett aukna pressu á ríkisstjórnina með því að beita áhrifum sínum innan Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hinsvegar sýni neitun forsetans fram á að takmarkanir kunni að vera á þeirri leið. Andúðin á samkomulaginu sé djúpstæð meðal margra kjósenda gagnvart og þvingunaraðgerðir frá öðrum ríkjum breyti ekki þeirri sannfæringu á næstunni.
Álit Moody's er að pólitísk ólga ásamt vaxandi þrýstingi frá öðrum ríkjum hindri útgönguleiðir Íslendinga úr kreppunni. Styrking gjaldeyrisforðans geti tafist þar sem að líklegt sé að erlendar lánalínur verði lokaðar enn um sinn. Jafnframt verði erfitt fyrir stjórnvöld að afnema gjaldeyrishöftin undir þessum kringumstæðum. Verði áframhaldandi þróun með öfgakenndum hætti gæti ástandið haft áhrif á alþjóðaviðskipti Íslendinga.
Hinsvegar ítrekar Moody's að gjaldeyrisstaða ríkisins sé ekki það viðkvæm að hún þoli ekki óvissu í nokkrar vikur eða jafnvel mánuði - það er þann tíma sem gæti liðið þangað til að deilan leysist. Gjaldeyrisstaðan dugi vel til að halda við gengi krónunnar með aðstoð gjaldeyrishaftanna. Ennfremur bendir Moody's á að stjórnvöld geti reitt sig á innlendan fjármálamarkað til þess að fjármagna hallarekstur sinn og ekki séu stórir gjalddagar á erlendum lánum ríkisins í ár.
Moody's bendir einnig á að Icesave-lánin og önnur neyðarlán séu til lengri tíma og ekki þurfi að greiða af þeim á næstu árum. Og það sem mestu skipti sé að nýjustu hagvísar bendi til þess að efnahagslægðin verði styttri og grynnri en í upphafi var búist við.