Ráðuneyti vanrækti í 13 ár að setja reglur

Róbert Ragnar Spanó er settur Umboðsmaður Alþingis.
Róbert Ragnar Spanó er settur Umboðsmaður Alþingis.

Fólk með löng nöfn hefur um langa hríð ekki fengið að skrá nöfn sín með réttum hætti í Þjóðskrá, vegna tæknilegra örðugleika. Nánar til tekið vegna þess að hugbúnaðurinn sem notaður er gerir aðeins ráð fyrir nöfnum lengd sem nær í mesta lagi 31 stafabili. Dómsmálaráðuneytið hefur vanrækt að setja reglur, samkvæmt lögum um mannanöfn, um slík tilvik.

Um þetta er fjallað í nýju áliti Umboðsmanns Alþingis, í máli manns sem kvartaði undan þessari framkvæmd Þjóðskrár í máli dóttur hans. Þar rekur umboðsmaður ákvæði laga nr. 45/1996, um mannanöfn og tekur fram að af löggjafinn hafi lengi lagt til grundvallar að skráningarform og -háttur nafns í þjóðskrá hafi mikilvæg réttaráhrif í för með sér fyrir þá sem í hlut eiga.

Umboðsmaður segir að það athafnaleysi stjórnvalda að hafa ekki enn sett þær reglur sem kveðið er á um í lögum um mannanöfn, sé ekki í samræmi við lög. Beinir hann þeim tilmælum til dómsmála- og mannréttindaráðherra að gera eins fljótt og kostur er ráðstafanir til þess að settar verði reglur í samræmi við umrætt ákvæði. Liðin eru þrettán ár síðan lögin voru sett, og ráðuneytið enn ekki búið að bregðast við tilmælum þeirra um að setja þessar reglur.

Umboðsmaður segir einnig að ráðuneytið eigi að tryggja að af hálfu Þjóðskrár verði gengið frá samkomulagi um skráningu nafna í þjóðskrá með formlegum hætti og í skriflegum búningi, og þá ekki síst til að tryggja að fært verði að leggja síðar nægar sönnur að slíku samkomulagi. Verklagi í störfum Þjóðskrár þurfi að breyta í það horf sem samrýmist þeim kröfum og sjónarmiðum sem rakin eru í áliti hans.

Að lokum mælist hann til þess við dómsmála- og mannréttindaráðherra að strax verði gerðar ráðstafanir til þess að dráttur af því tagi, sem varð á svörum Þjóðskrár í málinu, endurtaki sig ekki, enda hafi embættið fleiri mál sem varða ákvarðanir Þjóðskrár til úrlausnar.

Álit Umboðsmanns Alþingis frá 29. desember síðastliðnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka