Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, skrifar á vef sinn að íslenskir kjósendur standi á milli þess að velja forsetann eða ríkisstjórnina í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Ef kjósendur hafni Icesave-lögunum í atkvæðagreiðslunni telji hún einsýnt að ríkisstjórnin segi af sér.
„Íslenskir kjósendur standa frammi fyrir skýru vali. Þjóðaratkvæðagreiðsla um staðfestingu eða synjun ríkisábyrgðar á Landsbankaláninu verður innan tveggja mánaða, væntanlega í lok febrúar. Kjósendur geta þá tekið afstöðu til breytinganna sem gerðar voru á lögunum um ríkisábyrgðina, en breytingarnar voru samþykktar á Alþingi Íslendinga 30. des. sl. með 33 atkvæðum gegn 30.
Hafni kjósendur breytingunum í atkvæðagreiðslunni tel ég einsýnt að ríkisstjórnin segi af sér og Jóhanna Sigurðardóttir skili umboði til stjórnarmyndunar á Bessastaði. Samþykki kjósendur breytingarnar sem Alþingi hefur þegar afgreitt, þá blasir við að forseti lýðveldisins segi af sér embætti.
Menn verða að tefla sínar skákir til enda. Í þessari stöðu verða ekki leiknir fleiri biðleikir. Valið er fólksins og valið er skýrt: Ríkisstjórn eða forseti.