Skilaboð forseta komust of seint til skila

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrimur J. Sigfússon sáu eins og aðrir …
Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrimur J. Sigfússon sáu eins og aðrir í sjónvarpinu hvaða ákvörðun forsetinn tók. mbl.is/Heiddi

Athygli vakti að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði og ítrekaði á blaðamannafundi í Stjórnarráðinu að hvorki formenn stjórnarflokkanna, né ráðherrar í ríkisstjórn, vissu um ákvörðun forsetans fyrr en á sama tíma og þjóðin.

Það rímaði illa við það sem Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði sjálfur á blaðamannafundi sínum. Þá sagði Ólafur, að hann hefði þegar tilkynnt forystumönnum ríkisstjórnarinnar um ákvörðun sína.

Þegar leitað var upplýsinga hjá embætti forseta vegna þessa misræmis var fátt um svör. Þær upplýsingar fengust þó, að „bíll hefði verið sendur“ og að það hafi verið gert áður en fundur forseta hófst. Ekki fengust nánari upplýsingar um hvenær bíllinn var sendur af stað.

Einar Karl Haraldsson, upplýsingafulltrúi forsætisráðuneytis, segir skýringuna á misræminu hins vegar einfalda: „Skilaboðin bárust ekki formönnum stjórnarflokkanna eða ráðherrum fyrr en blaðamannafundur forsetans var hafinn og sex, sjö mínútur liðnar af honum.“ Hann hafi þá þegar tilkynnt ákvörðun sína þjóðinni.

Skemmst er að minnast þess að árið 2004, síðast þegar Ólafur Ragnar synjaði lögum staðfestingar, ræddi forseti í síma við þáverandi formenn ríkisstjórnarflokkanna, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, og greindi þeim frá ákvörðun sinni. Það gafst varla vel, úr því hann vék frá þeirri venju.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert