Staða Íslands væri stórlöskuð

Jóhanna Sigurðardóttir og Ólafur Ragnar Grímsson á Bessastöðum þegar Jóhanna …
Jóhanna Sigurðardóttir og Ólafur Ragnar Grímsson á Bessastöðum þegar Jóhanna myndaði ríkissstjórn í apríl. mbl.is/Golli

Í bréfi, sem Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sendi Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, á mánudag, segir m.a. að synji hann Icesave-lögunum staðfestingar myndi það leiða til þess að staða Íslands í alþjóðasamstarfi væri stórlöskuð. 

„Hætta sé á að um langa hríð yrði litið svo á að landið væri óábyrgt og stjórnvöld ekki fær um til að taka bindandi ákvarðanir," segir bréfinu, sem er samantekt unnin af sérfræðingum í stjórnarráðinu og yfirfarin af Seðlabanka Íslands, um stöðu mála vegna Icesave.

Þá segir einnig, að ef Icesave-lögin verða felld í þjóðaratkvæði séu allar líkur á því að fyrri samningarnir, sem gerðir voru í sumar, falli einnig úr gildi.   Bretar og Hollendingar gætu til viðbótar kröfum um greiðslu lágmarkstrygginga gert kröfu um fulla tryggingu innstæðna með vísan til jafnræðissjónarmiða. Slíkt myndi styrkja verulega kröfur sveitarfélaga, líknarfélaga og annarra heildsöluinnstæðueiganda í Bretlandi og sveitarfélaga og einstaklinga með innstæður yfir 100 þús evrur í Hollandi um ábyrgð íslenska ríkisins á heildar innstæðum. Eins gætu þeir gert kröfur vegna þeirrar mismununar á innstæðueigendum sem kom til við flutning eigna í nýja bankann. Yrði fallist á slíkar kröfur yrði fjárhagslegt tap Ísland hundruð milljarða króna. 

Varð ekki við ósk um fund

Vefmiðillin Pressan segir, að Jóhanna Sigurðardóttir hafi einnig óskað eftir því bréflega við Ólaf Ragnar Grímsson síðdegis sl. mánudag að eiga fund til að ræða við hann um væntanlega ákvörðun hans um  Icesave-lögin.  Forsetinn hafi hins vegar engu svarað um þessa beiðni.

Jóhanna sagði við Morgunblaðið í dag, að stjórnvöld hefðu sent forseta Íslands gögn um stöðu mála, síðast á mánudagskvöld og hann hafi ætlað að ræða við hana áður en hann kynnti niðustöðu sína. „En af einhverjum orsökum var það ekki fyrr en þjóðin fékk að vita þetta," sagði Jóhanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert