Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, mun á næstu dögum, hugsanlega í fyrramálið, halda til fundar við ráðamenn í Bretlandi til viðræðna um Icesave-málið í ljósi þeirrar stöðu sem komin er upp eftir að forseti Íslands synjaði Icesave-lögunum staðfestingar.
„Ég hef í dag átt viðræður bæði við fjármálaráðherra Bretlands og Hollands vegna þessa máls. Þær hafa verið vinsamlegar og tónninn ekki jafn hvass og í umræðunni heimafyrir," sagði Steingrímur við fréttamenn að loknum ríkisstjórnarfundi nú síðdegis.
Forseti Íslands sagði í gær, að hann synjaði lögunum staðfestingar og vísaði þeim til þjóðarinnar meðal annars í þeim tilgangi að skapa sátt í málinu. Aðspurður um hvort ákvörðun forsetans hefði verið innlegg í þá veruna sagði Steingrímur að þau hörðu viðbrögð, sem fram hefðu komið heima og heiman svöruðu þeirri spurningu.
Hann sagði að síðustu sólarhringa hefði verið unnið þrotlaust að því að draga úr þeim skaða sem ákvörðun forseta hefði fylgt, meðal annars af hálfu utanríkisþjónustunnar. Áfram yrði unnið sleitulaust að sama markmiði.