Telur útlenda fjölmiðla misskilja málið

Maria Elvira Méndez Pinedo, dósent í Evrópurétti við Háskóla Íslands.
Maria Elvira Méndez Pinedo, dósent í Evrópurétti við Háskóla Íslands. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Maria Elvira Méndez Pinedo, dósent í Evrópurétti við Háskóla Íslands, segir á vef sínum að forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, hafi neitað að skrifa undir Icesave-lögin vegna ákalls frá þjóðinni sem vill fá beint lýðræði. Hún segir Íslendinga vilja að félagslegt réttlæti og mannréttindi verði tekin með í reikninginn á hinum innri markaði Evrópu. Hún veltir fyrir sér hvort Evrópusambandið og EES hafi brugðist Íslandi.

Hún segir að það sé viðvarandi misskilningur sem ríki í erlendum fjölmiðlum um að Íslendingar vilji ekki borga. Alþingi hafi þegar samþykkt lög þar að lútandi, að greiða skuldbindingar sínar og standa þar með við alþjóðlegar skuldbindingar sínar. Lögin hafi verið samþykkt á Alþingi í september sl. af fulltrúum flestra flokka. Hins vegar hafi Hollendingar og Bretar ekki samþykkt ákveðin skilyrði sem sett voru í lögunum og því hafi önnur lög verið samþykkt á Alþingi þann 30. desember sl. 

Pinedo fjallar ítarlega um málið á vefsíðu sinni þar sem hún hvetur útlenda miðla til þess að kynna sér málið betur í stað þess að halda því fram að Íslendingar vilji ekki borga skuldir sínar.

Greinin í heild

Íslenska stjórnsýslan fjarri fólkinu í landinu

Í viðtali við Morgunblaðið sl. sumar sagði Pinedo skynja rangindi í því að Evrópusambandið hafi ekki beitt sér með afgerandi hætti.

„Ég hef ásamt fleirum sagt mína skoðun á þessu og nú verða stjórnmálamennirnir að finna forsvaranlega lausn. Ég er sannfærð um að þetta eru sögulegir tímar fyrir okkur Íslendinga og við megum sízt af öllu þegja yfir staðreyndum, sama hversu óþægilegar þær eru. Lýðræði okkar og reisn á erfiðum tímum eru grundvallaratriði sem við megum aldrei gefa frá okkur. Það verður að líta á gagnrýni mína í þessu ljósi.

Þegar ég fór að kynna mér stöðu Icesave sem er stærsta Evrópumálið hér á landi þessa dagana kom það mér í opna skjöldu hvað íslenzka stjórnsýslan var fjarlæg fólkinu í landinu. Evrópusamstarf og aðild Íslands að því voru ekki rædd og það var ekkert hlustað á almenning. Evrópusambandið kemur ekki við sögu í þeim lausnum sem til tals komu. Þetta er röng aðferðafræði að mínu mati. Það gengur ekki að ætla að keyra svona hluti ofan í fólk þegjandi og hljóðalaust. Það endar bara á versta veg.

Annað sem vakti athygli mína var að ríkisstjórnin virtist ekki hafa gert sér far um að kynna sér innra gangverk Evrópusamstarfsins en litið framhjá öllum möguleikum á að kynnast því og koma sínum málum þar á framfæri. Hafi eitthvað verið gert þá hefur það ekki skilað sér til almennings á Íslandi.

Ég hef ekki séð sönnur þess að skrifleg beiðni um aðstoð Evrópusambandsins hafi verið send og ég hef heldur ekki séð sönnur þess að Ísland hafi mótmælt því að Bretar, Þjóðverjar og Hollendingar misnotuðu aðstöðu sína í Evrópuráðinu til að sannfæra spænska fulltrúann, Joaquín Almunia, um að Ísland þarfnaðist ekki fjölþjóðlegs efnahagspakka sér til björgunar einsog hann lagði til í nóvember 2008. Hvað hefur eiginlega gerzt? Hvað sem líður ábyrgð efnahagsstofnana nokkurra landa, ekki bara Íslands, get ég ekki fallizt á að stofnanir Evrópusambandsins bregðizt almenningi í því að sjá til þess að innri markaðurinn virki. Til þess liggja of mörg saklaus fórnarlömb í valnum.

Ég hef spurt margra spurninga af því að ég vil vera viss um að Icesave-samningarnir séu eina leiðin út úr ógöngunum og mér er spurn hvort allir aðrir möguleikar á lögfræðilegum/pólitískum lausnum hefðu verið kannaðir og ræddir á æðstu stöðum. Ég hef enn ekki fengið sannanir fyrir mörgum hlutum. Ég hef ekki aðgang að leyniskjölum, en það er mín auðmjúk afstaða að íslenzk stjórnvöld hafi brugðizt í því að ræða við Evrópusambandið á þeim nótum sem þarf til að leysa þetta mál.

Nú stöndum við uppi með Icesave-samninga, sem eru svo fjarri því að vera ásættanlegur kostur í stöðunni. Og ef við ekki breytum um kúrs er hætta á að framhaldið verði ekki skárra. Það er ekkert grín að fóta sig í Evrópusamstarfinu, það má segja að við séum á gráu svæði sem gangi inn á ESB-rétt, EES-rétt og alþjóðalög. Það er því að mörgu að hyggja og eins gott að menn viti hvað þeir eru að gera.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert