Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sendi forseta Íslands bréf í fyrradag, þar sem hann var varaður við alvarlegum afleiðingum þess að synja Icesave-lögunum staðfestingar. Fram kom í fréttum Ríkisútvarpsins, að í bréfinu komi fram að Bretar og Hollendingar græði jafnvel meira á því að Íslendingar hafni lögunum.
Að sögn Ríkisútvarpsins kemur fram í bréfinu, að það sé óvíst og algerlega í höndum Breta og Hollendinga hvort koma muni til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið, því þeir geti fallið frá samningnum sem lögin fjalla um. Þeir hafi nú þegar leyst til sín kröfur meginþorra innstæðueigenda á þrotabú Landsbankans. Í krafti þeirra muni þeir fá til sín langstærstan hluta þess sem greiðist úr þrotabúinu, og fái þannig á næstu sjö árum allar þær greiðslur sem þeir hefðu fengið samkvæmt samningnum. Bretar og Hollendingar yrðu þannig í reynd eins og eigendur þrotabúsins, og hefðu ráð íslenskra skuldunauta þrotabúsins í hendi sér.
Í bréfinu kemur fram að Bretar og Hollendingar græði lítið meira á nýjum Icesave-samningum, eða jafnvel minna en án þeirra, og gætu með nokkrum rétti haldið því fram að íslensk stjórnvöld séu ekki samningshæf. Að auki gætu þeir gert kröfur fyrir dómstólum á hendur Tryggingasjóðs innistæðueigenda og íslenska ríkisins. Þeir þurfi þó ekki að taka afstöðu til þess fyrr en 2012. Í millitíðinni gætu þeir neytt utanríkis-pólitísks aflsmunar, á vettvangi Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og innan Evrópusambandsins.