Breska viðskiptablaðið Financial Times segir í leiðara í dag, að Landsbankamálið hafi sýnt fram á, að Evrópa verði að styrkja sameiginlegt regluverk sitt. Það verði ekki gert með því að setja Ísland í skuldafangelsi.
Í leiðaranum segir, að forseti Íslands hafi ekki átt annars úrkosti en að vísa Icesave-lögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu í ljósi þess hve margir kjósendur óskuðu eftir því. Líklega verði lögunum síðan hafnað þar og það kunni að kenna Bretum og Hollendingum þá lexíu, að það sé takmörk fyrir því hverju hægt sé að ná fram með þvingunum. Hins vegar sé tíminn jafnframt of naumur.
Blaðið segir, að Landsbankinn hafi boðið Icesave-reikninga í samræmi við Evrópureglur, sem geri bönkum kleift að opna útibú hvar sem er á Evrópska efnahagssvæðinu uppfylli þeir reglur í heimalandi sínu og taki þátt í innistæðutryggingakerfi. En þegar bankinn hrundi í október 2008 hafi skuldbindingar bankans verið íslenska tryggingasjóðnum ofviða.
Í leiðaranum eru síðan raktir Icesave-samningar Breta og Hollendinga og sagt að erfitt sé að skilja hvers vegna ganga þurfi svona hart að Íslandi. Þessi lán séu smámunir í augum kröfuhafanna, 1% af lántökum Breta á þessu og næsta ári. Það myndi kosta stjórnvöld í Lundúnum og Amsterdam nánast ekkert að sýna örlæti.
Þá hafi breskir og hollenskir bankar einnig hagnast verulega á Evrópureglunum. Hefðu þeir hrunið eins og þeir íslensku hefðu viðkomandi stjórnvöld aldrei tekið á sig hundruð milljarða punda skuldir til að bjarga erlendum innistæðueigendum og því sé andstyggilegt að neyða veikburða nágranna til slíks.
Blaðið Independent skrifar einnig leiðara um Icesave-málið í dag og segir að bresk stjórnvöld hafi hagað sér eins og kúgari gagnvart Íslandi. Fyrst hafi eignir Íslands verið frystar með hryðjuverkalögum og þegar íslenska þingið samþykkti lánasamning í sumar hafi breska ríkisstjórnin hafnað skilmálum, sem sett voru.
Síðan þá hafi Bretland notað nánast allar mögulegar leiðir til beita Ísland þrýstingi. Ljóst sé að ríkisstjórnin hafi beitt áhrifum sínum innan Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins tll þess. „Það er hægt að kalla þetta fjárkúgun," segir blaðið.
Independent segir, að í þessari viku hafi breska ríkisstjórnin á ný gripið til hrekkjusvínabragðanna og vísar m.a. til ummæla Myners lávarðar sem sagði að ákvörðun forseta Íslands að synja Icesave-lögunum staðfestingar þýddi að Ísland vildi ekki taka þátt í alþjóðlega stjórnmálakerfinu. „Þetta er hótun um einangrun, sem Bretland hefur til þessa aðeins beitt gegn alþjóðlegum úrhökum á borð við Simbabve og Norður-Kóreu," segir Independent.
Blaðið segir síðan, að svona framkoma sæmi ekki Bretlandi og virðist raunar hafa haft þveröfug áhrif. Ljóst sé að Bretar fái lítið sem ekkert til baka af því fé, sem þeir vörðu til að bæta breskum sparifjáreigendum tjónið af falli íslensku bankanna nema einhverskonar málamiðlun náist.
Ljóst sé, að Ísland muni á endanum ekki eiga annars úrkosti en að greiða Bretum bætur. En hægt hefði verið að koma í veg fyrir allan þennan sársauka hefðu Bretar gripið til fyrirbyggjandi aðgerða áður en fjármálakreppan skall á.