Ekki setja Ísland í skuldafangelsi

Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands.
Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands. Reuters

Breska viðskipta­blaðið Fin­ancial Times seg­ir í leiðara í dag, að Lands­banka­málið hafi sýnt fram á, að Evr­ópa verði að styrkja sam­eig­in­legt reglu­verk sitt. Það verði ekki gert með því að setja Ísland í skuldafang­elsi. 

Í leiðar­an­um seg­ir, að for­seti Íslands hafi ekki átt ann­ars úr­kosti en að vísa Ices­a­ve-lög­un­um í þjóðar­at­kvæðagreiðslu í ljósi þess hve marg­ir kjós­end­ur óskuðu eft­ir því. Lík­lega verði lög­un­um síðan hafnað þar og það kunni að kenna Bret­um og Hol­lend­ing­um þá lex­íu, að það sé tak­mörk fyr­ir því hverju hægt sé að ná fram með þving­un­um. Hins veg­ar sé tím­inn jafn­framt of naum­ur.  

Blaðið seg­ir, að Lands­bank­inn hafi boðið Ices­a­ve-reikn­inga í sam­ræmi við Evr­ópu­regl­ur, sem geri bönk­um kleift að opna úti­bú hvar sem er á Evr­ópska efna­hags­svæðinu upp­fylli þeir regl­ur í heimalandi sínu og taki þátt í inni­stæðutrygg­inga­kerfi. En þegar bank­inn hrundi í októ­ber 2008 hafi skuld­bind­ing­ar bank­ans verið ís­lenska trygg­inga­sjóðnum ofviða.  

Í leiðar­an­um eru síðan rakt­ir Ices­a­ve-samn­ing­ar Breta og Hol­lend­inga og sagt að erfitt sé að skilja hvers vegna ganga þurfi svona hart að Íslandi. Þessi lán séu smá­mun­ir í aug­um kröfu­haf­anna, 1% af lán­tök­um Breta á þessu og næsta ári. Það myndi kosta stjórn­völd í Lund­ún­um og Amster­dam nán­ast ekk­ert að sýna ör­læti.

Þá hafi bresk­ir og hol­lensk­ir bank­ar einnig hagn­ast veru­lega á Evr­ópu­regl­un­um. Hefðu þeir hrunið eins og þeir ís­lensku hefðu viðkom­andi stjórn­völd aldrei tekið á sig hundruð millj­arða punda skuld­ir til að bjarga er­lend­um inni­stæðueig­end­um og því sé and­styggi­legt að neyða veik­b­urða ná­granna til slíks.

Það á ekki að kúga Ísland

Blaðið In­depend­ent skrif­ar einnig leiðara um Ices­a­ve-málið í dag og seg­ir að bresk stjórn­völd hafi hagað sér eins og kúg­ari gagn­vart Íslandi. Fyrst hafi eign­ir Íslands verið fryst­ar með hryðju­verka­lög­um og þegar ís­lenska þingið samþykkti lána­samn­ing í sum­ar hafi breska rík­is­stjórn­in hafnað skil­mál­um, sem sett voru. 

Síðan þá hafi Bret­land notað nán­ast all­ar mögu­leg­ar leiðir til beita Ísland þrýst­ingi. Ljóst sé að rík­is­stjórn­in hafi beitt áhrif­um sín­um inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins og Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins tll þess. „Það er hægt að kalla þetta fjár­kúg­un," seg­ir blaðið.

In­depend­ent seg­ir, að í þess­ari viku hafi breska rík­is­stjórn­in á ný gripið til hrekkju­svína­bragðanna og vís­ar m.a. til um­mæla Myners lá­v­arðar sem sagði að ákvörðun for­seta Íslands að synja Ices­a­ve-lög­un­um staðfest­ing­ar þýddi að Ísland vildi ekki taka þátt í alþjóðlega stjórn­mála­kerf­inu. „Þetta er hót­un um ein­angr­un, sem Bret­land hef­ur til þessa aðeins beitt gegn alþjóðleg­um úr­hök­um á borð við Simba­bve og Norður-Kór­eu," seg­ir In­depend­ent.

Blaðið seg­ir síðan, að svona fram­koma sæmi ekki Bretlandi og virðist raun­ar hafa haft þver­öfug áhrif. Ljóst sé að Bret­ar fái lítið sem ekk­ert til baka af því fé, sem þeir vörðu til að bæta bresk­um spari­fjár­eig­end­um tjónið af falli ís­lensku bank­anna nema ein­hvers­kon­ar mála­miðlun ná­ist. 

Ljóst sé, að Ísland muni á end­an­um ekki eiga ann­ars úr­kosti en að greiða Bret­um bæt­ur. En hægt hefði verið að koma í veg fyr­ir all­an þenn­an sárs­auka hefðu Bret­ar gripið til fyr­ir­byggj­andi aðgerða áður en fjár­málakrepp­an skall á. 

Leiðari Fin­ancial Times

Leiðari In­depend­ent

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka