Joly harðorð í garð Hollendinga

Eva Joly, ráðgjafi sérstaks saksóknara vegna bankahrunsins
Eva Joly, ráðgjafi sérstaks saksóknara vegna bankahrunsins mbl.is/Golli

Eva Joly, ráðgjafi embættis sérstaks saksóknara, segir í viðtali við hollenska blaðið Nrc Handelsblad að hollenskir eftirlitsaðilar hafi verið kærulausir þegar að kom að því að kanna hvort eftirlitsaðilar á Íslandi væru að vinna vinnuna sína varðandi Icesave. Sem þeir gerðu ekki að sögn Joly. Hún segir að Hollendingar hafi reynt að fela mistök sín með því að vísa til lagalegrar skyldu Íslendinga hvað varðar Icesave-reikningana og bætir við að þetta sé hneyksli.

Fólksflóttinn hafinn

Joly segir að ef Hollendingar komi ekki á móts við Íslendinga verði engir eftir á eyjunni aðrar en sjómenn og fólk sem kemur að fiskvinnslu. Á sama tíma verði Hollendingar ekki búnir að fá peningana sína aftur.

 „Fólksflóttinn er byrjaður. 8.000 vel menntaðir einstaklingar hafa þegar yfirgefið eyjuna og fleiri munu fylgja í kjölfarið. Það er ekki okkar hagur að ganga nærri Íslandi. Landið á gjöfular náttúruauðlindir og staðsetning þess mikilvæg. Við ættum ekki að kúga þá heldur semja við þá, á mun betri og þroskaðri hátt heldur en hingað til," segir Joly í viðtalinu.

Þjófnaður á almannafé

Hún segir að bankarnir sem nánast stefndu Íslandi í þrot hafi allir verið í einkaeigu. Meirihluti íslensku þjóðarinnar hafi ekki komið þar nærri. Hins vegar séu skuldir bankanna nú orðnar að skuldum ríkisins og hafi því áhrif á alla. „Þetta er þjófnaður á almannafé," bætir Joly við. 

Sýndu Íslendingum hroka

Hún segir að bæði Hollendingar og Bretar hafi sýnt Íslendingum hroka og ljóst sé að Íslendingar geti aldrei greitt þær fjárhæðir sem þeir eru krafðir um vegna Icesave.  Það sem Icesave hafi gert hafi verið rangt en Hollendingar og Bretar eigi einnig sök að máli. Fjármálaeftirlit beggja landanna hafi brugðist og vísað ábyrgðinni yfir á eftirlitsaðila á Íslandi þó ljóst hafi verið að ekki væri möguleiki á því að örfáar manneskjur í Reykjavík gætu fylgst með því sem gerðist í Amsterdam og Lundúnum.

Viðtalið við Evu Joly í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert