Utanríkisráðherra Lettlands, Maris Riekstins, hefur tekið upp hanskann fyrir Íslendinga og ákvörðun forseta Íslands, um að skjóta Icesave-málinu til þjóðarinnar.
Lettar hafa, líkt og við Íslendingar, þurft á erlendri aðstoð að halda og leitað til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eftir lánum. Riekstins tjáði sig um Icesave-málið í dag og gagnrýndi „hin ýktu viðbrögð" sumra ríkja við ákvörðun forsetans.
Sagði hann að ákvörðun Ólafs Ragnars hafi verið innan marka íslenskrar stjórnskipunar. Í tilkynningu, sem utanríkisráðuneyti Lettlands sendi frá sér, er vitnað í ráðherrann. Þar segir hann að hin ýktu viðbrögð sumra evrópskra stjórnmálamanna við ákvörðuninni, þar með talið að hóta einangrun Íslands frá alþjóðasamfélaginu, vektu ótta og efasemdir um rétt lýðræðisríkja til þess að taka ákvarðanir í samræmi við eigin lög og stjórnarskrá.
„Eru þessi viðbrögð til komin vegna þess að Ísland er smáríki? Það er erfitt að ímynda sér að svipaðar athugasemdir hefðu heyrst, ef til dæmis, skref sem þetta hefði verið stigið af forseta Frakklands," segir Riekstins.
Hann tók einnig fram að Ólafur Ragnar hefði tekið fram að Íslendingar viðurkenndu alþjóðlegar skuldbindingar sínar.