Löng töf á úrlausn Icesave er öllum til tjóns

Steingrímur J. Sigfússon ræðir við fréttamenn eftir synjun forseta.
Steingrímur J. Sigfússon ræðir við fréttamenn eftir synjun forseta. mbl.is/Golli

Ráðamenn íslenskra, breskra og hollenskra stjórnvalda hafa verið í stöðugum viðræðum og samskiptum síðustu sólarhringa. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra hefur átt samtöl við Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta, og Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, í gær og fyrradag. Hafa báðir ráðherrarnir lýst yfir vonbrigðum með ákvörðun forseta Íslands að staðfesta ekki lög um Icesave-ríkisábyrgðina.

Fer Steingrímur líklega utan til Bretlands í dag til frekari viðræðna.

 Vinsamleg samtöl

„Við höfum þurft að vinna mjög hratt til að róa ástandið svo ákvörðun forseta Íslands valdi sem minnstum skaða. Ég hef rætt við fjármálaráðherra bæði Bretlands og Hollands vegna málsins og hafa þau samtöl verið mun vinsamlegri en þegar þeir úttala sig við fjölmiðla í heimalöndum sínum. Samtölin hafa í sjálfu sér ekki breytt neinu stóru í málinu en menn eru þó tilbúnir að ræða saman og löng töf á úrlausn þessa máls er öllum til tjóns,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon við blaðamenn að loknum ríkisstjórnarfundi síðdegis í gær.

Talsmaður breska fjármálaráðuneytisins sagði við Morgunblaðið í gær að þrátt fyrir vonbrigði með stöðu mála hefði ráðuneytið skuldbundið sig til að vinna áfram með og ráðfæra sig við íslensk og hollensk stjórnvöld, sem og ráðamenn innan Evrópusambandsins. Bresk stjórnvöld reiknuðu áfram með að Íslendingar myndu standa við sínar skuldbindingar vegna Icesave.

Svipaða sögu hafði talsmaður hollenska fjármálaráðuneytisins, Niels Redeker, að segja í gær. Hollensk stjórnvöld væru í stöðugum samskiptum við þau bresku og íslensku og svo myndi verða áfram á næstunni. Wouter Bos hefði átt ágætt samtal við Steingrím J. Sigfússon strax á þriðjudag, þar sem þeir hefðu báðir lýst vonbrigðum sínum með ákvörðun forsetans íslenska. Bos hefði einnig rætt við Alistair Darling.

Íslendingar standi skil

„Hollensk stjórnvöld halda fast við þá stefnu að Ísland sé skuldbundið til að standa skil á sínum endurgreiðslum vegna Icesave. Það er óviðunandi að þessi mál hafi ekki verið leyst,“ sagði Redeker.

Í yfirlýsingu frá Bos á heimasíðu ráðuneytisins hollenska ítrekar hann vonbrigði sín. Miklum tíma hefði verið varið í viðræður milli ríkjanna undanfarna mánuði, þar sem tekið hefði verið tillit til vilja Alþingis og aðstæðna í íslensku efnahagslífi.

Spurður út í fyrri lög Alþingis um Icesave, síðan í haust, sagði Redeker hvorki Hollendinga né Breta hafa viljað staðfesta samninga sem byggðust á þeim lögum.

Aðspurður sagði Steingrímur ekki annað í spilunum en halda ríkisstjórnarsamstarfinu áfram. „Ekki væri á bætandi ef hér kæmi líka pólitísk upplausn ofan í hitt,“ segir Steingrímur. Hann kveðst ekki vilja svara því nú hvort ríkisstjórninni sé sætt verði Icesave fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu – og hvort forsetanum verði vært í embætti verði niðurstaðan sú fari best á því að hann sé þar sjálfur til svara.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert