Ótrúlegar byrðar lagðar á Íslendinga

Björk Guðmundsdóttir er ásamt fiskinum og peysum það eina verðmæta …
Björk Guðmundsdóttir er ásamt fiskinum og peysum það eina verðmæta sem Íslendingar eiga, samkvæmt greinarhöfundi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hvernig þessir bjánar í Lundúnum létu sjómennina gera grín að okkur, er heitið á pistli sem birtist á vef breska dagblaðsins Daily Mail í dag. (How idiots in London let the cod fishers make fools of us).

Í pistlinum er bent á það hvernig íbúum Leicester liði ef þeir vöknuðu einn daginn við þá fregn að börn þeirra og barnabörn bæru ábyrgð á 35 milljarða punda skuld, það gæti eyðilagt matarlystina fyrir einhverjum. Segist pistlahöfundur nota íbúa Leicester sem dæmi þar sem þeir séu álíka margir og Íslendingar.

Ekki það sama og fá háan kortareikning eftir jólin

Pistlahöfundur bendir á að það sé eitt að fá háan kreditkortareikning eftir jólin eða verða aðeins á eftir með afborganir af fasteign, en 35 milljarðar punda sé dálítið meira og annað.

Fall íslenska bankakerfisins, sem var allt of þanið, hefur skilið þetta litla land eftir með timburmenn sem eru miklu verri heldur en þeir sem Bretar þurfa að glíma við. Gengi krónunnar hefur hrundið, laun hafa lækkað og fólk hefur misst vinnuna. Framtíð efnahagsmála er svört og engin leið að fá fé að láni nema á okurvöxtum.

Íslendingar eru brjálaðir yfir því sem gerðist. Í landi þar sem glæpir eru fátíðir, hafa bílar og hús útrásarvíkinganna - sem keyrðu bankana í þrot, verið skemmdir. Íslendingar kalla sig nú ísþrælana, „Iceslaves" vegna þeirra byrða sem þeir þurfa að bera.

Í þessari beindist kastljós umheimisins að Íslandi. Forseti landsins, Ólafur Ragnar Grímsson, skrifaði ekki undir Icesave-lögin. Á morgun mun íslenska þingið koma saman og ræða um þjóðaratkvæðagreiðslu og er fastlega gert ráð fyrir að þjóðin hafni setningu laganna.   Flestir Íslendingar láta það ekki hafa áhrif á sig að þetta geti haft áhrif á lán þeirra hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Né heldur aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Staða þeirra í alþjóðasamfélaginu er í hundakofanum.

Þeir neita því einfaldlega að bera ábyrgð á glæpum útrásarvíkinganna, skrifar pistlahöfundurinn Max Hastings. Hann segir Íslendinga telja þau kjör sem þeim standi til boða hjá Bretum og Hollendingum óásættanleg. 

Hefur samúð með Íslendingum

Hann segir jafnframt að tæknilega sé ljóst að íslensku bankarnir báru ábyrgð á því fé sem lagt var inn hjá þeim. En samt sem áður hafi hann og fleiri ákveðna samúð með Íslendingum. Hvað var alþjóðlega fjármálakerfið og fjármálaeftirlitin að gera? Með því að heimila eldfjallaeyríki, sem Warren Buffett gæti auðveldlega keypt sér sem jólagjöf, að þykjast verða alþjóðleg fjármálamiðstöð.

Sparifjáreigendur sem trúðu á jólasveininn

Breskir sparifjáreigendur, sveitarfélög og fleiri lögðu inn á reikninga bankanna sem buðu miklu hærri vexti en aðrir. Þeir ákváðu að trúa á jólasveininn vegna þess að Moodys gaf Íslandi AAA einkunn á sama tíma og ESB og Englandsbanki kinkuðu kolli og ákváðu að óhætt væri að leggja inn fé á reikningana.

Pistlahöfundur segist hafa komið til Íslands í nokkur skipti og lýsir landi og þjóð frekar.  Hann segir einu verðmæti Íslands séu fiskurinn, Björk og fallegar peysur. Það hafi hins vegar ekki stöðvað regluverkið og bankamenn heimsins í að koma fram við íslensku bankana á annan hátt en þeir skiptu miklu máli. Nú þurfi hins vegar þessi litla þjóð að bera þær byrðar.

Hann segir að lagalega þá standi Íslendingar illa. Hann ætli hins vegar að geyma reiðina fyrir fíflin í New York, Lundúnum og öðrum höfuðborgum Evrópu sem leyfðu fiskimönnunum að gera grín að þeim sem og þeim sjálfum.

Greinin í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert