Ríkisstjórnin nýti sér athygli sem tækifæri

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. mynd/norden.org

„Ríkisstjórnin á að nýta sér þá fjölmiðlaathygli sem nú beinist að Íslandi sem tækifæri en ekki ógn. Við eigum við þær aðstæður sem nú er uppi að gera allt hvað við getum til að koma málstað okkar á framfæri og reyna þannig niðurstöðu í Icesave-málinu sem er okkur Íslendingum hagstæðari en sú sem fyrir liggur,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.

Þingflokkur sjálfstæðismanna kemur saman til fundar í dag, þar sem farið verður yfir stöðu mála, meðal annars fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu. Rætt er um að þing komi saman í vikulokin þar sem frumvarp um atkvæðagreiðslu verður tekið fyrir og síðan í febrúarbyrjun þegar skýrsla rannsóknarnefndar um bankahrunið verður lögð fram.

Viðbrögðin alltof sterk

„Viðbrögð við ákvörðun forsetans eru alltof sterk, eins þegar einstaka stjórnarþingmenn halda því fram að þingið sé óstarfhæft. Þingið getur alveg haldið sínu striki þrátt fyrir þetta, enda mörg brýn mál sem bíða,“ segir Bjarni. Víða er spurt hver niðurstaðan í fyrirhugaðri þjóðaratkvæðagreiðslu geti hugsanlega orðið. Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, telur niðurstöðuna geta farið á báða vegu.

„Fyrirfram hefðu flestir talið að þetta mál væri ekki beint til vænsælda fallið en hins vegar benti Gallup-könnunin til að útkoman úr slíkri atkvæðagreiðslu væri ekki sjálfgefin. Þegar menn sáu þessi miklu viðbrögð og áttuðu sig á samhengi hlutanna þá held ég að mörgum hafi brugðið talsvert.“

Bjarni Benediktsson telur mikilvægt að ríkisstjórnin reyni nú eftir megni að ná fram nýrri niðurstöðu í Icesave-málinu. Til greina komi til dæmis að fara út í viðræður sem allir flokkar á Alþingi hafi aðkomu að og draga nýsamþykkt Icesave-lög til baka. Bjarni segist raunar hafa talað fyrir slíku í Kastljósviðtali í fyrrakvöld og sama hefur Kristján Þór Júlíusson, þingmaður flokksins í NA-kjördæmi, sagt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert