Segir ákvörðun forsetans sigur fyrir framsókn

Höskuldur Þórhallsson.
Höskuldur Þórhallsson. Bragi —r J—sefsson

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir það sigur fyrir Framsóknarflokkinn að forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, hafi ákveðið að fara með Icesave málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það sé þjóðarinnar að ákveða hvert framhaldið verði og segist hann vona að þjóðin felli lögin í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Framsóknarflokkurinn kaus það þegar breytingin á Icesave-lögunum kom til atkvæðagreiðslu að þjóðin fengi að segja sitt.

„Ég hlakka til að fara í þá baráttu en vona að hún snúist fyrst og fremst um lögin sjálf og það hvort við ætlun að leggja þungar klyfjar á komandi kynslóðir en ekki líf ríkisstjórnarinnar.  Ef ríkisstjórnin vill bara í þá baráttu þá treysti ég mér fullvel í það. Því ég held að ríkisstjórnin hafi haldið eins illa á hagsmunum Íslands og hugsast getur líkt og bersýnilega hefur komið í ljós á undanförnum dögum."

Höskuldur segist vilja að þjóðin  fái að kjósa um þetta mál en það er í hans huga lykilatriði þannig að þau skref sem stigin verða tekur þjóðin í sameiningu.

Aðspurður segir Höskuldur að það sé í höndum ríkisstjórnarinnar að taka ákvörðun um hvort reynt verði að semja á ný við Breta og Hollendinga ef lögin verða felld í þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Við höfum ávallt lýst okkur reiðubúin til að koma að þeirri vinnu. Ef þjóðin hafnar þessu eins og ég vona að hún geri og tel best fyrir hagsmuni Íslendinga þá sitjum við uppi með lögin frá því 28. ágúst. Þau verja Íslendinga þokkalega. Ekki nægjanlega vel en þokkalega og þá er það Breta og Hollendinga að ákveða hvernig þeir vilja haga sínum málum.

Ég óttast ekki þeirra viðbrögð og hef aldrei gert. Ég tel að það sé einfaldlega hluti af hræðsluáróðri ríkisstjórnarinnar að hræða líftóruna úr þjóðinni. Mér finnst það afar óábyrgt hvernig þau hafa hagað málflutningi sínum á undanförnum dögum, segir Höskuldur í samtali við mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert