„Samstarfsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins yrði óvirk og allt eins líklegt að henni yrði rift ef fjármögnun hennar er hrunin,“ segir í bréfi Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra til Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands um stöðu mála vegna Icesave.
Bréfið sem sent var á mánudag, daginn áður en forsetinn synjaði Icesave-lögunum staðfestingar, er samantekt unnin af sérfræðingum í Stjórnarráðinu, yfirfarin af Seðlabanka Íslands. Í því er gert ráð fyrir að enginn samningur um Icesave verði í gildi, s.s. þar sem þjóðin felli málið í þjóðaratkvæðagreiðslu eða að Bretar og Hollendingar falli einfaldlega frá samningunum. Tekið er fram, að þó svo lögin frá 28. ágúst tækju gildi ef núverandi lög yrðu felld, eru skilyrði þeirra fyrrnefndu með þeim hætti að afar ólíklegt sé að Icesave-samningarnir öðlist gildi.
Í bréfinu segir að Bretar og Hollendingar myndu á vettvangi AGS halda því fram að Ísland hafi ekki staðið við yfirlýsingar sínar í viljayfirlýsingu frá því í nóvember 2008 um að ganga frá samningunum og að þeir myndu ekki geta stutt fyrirgreiðslu við Ísland meðan svo væri.
Norðurlöndin myndu væntanlega hafa sömu afstöðu og segja að skilyrði fyrir lánveitingum væru ekki til staðar. „Staða Íslands í alþjóðasamstarfi væri stórlöskuð. Hætta er á að um langa hríð yrði litið svo á að landið væri óábyrgt og stjórnvöld ekki fær um að taka bindandi ákvarðanir.“
Sjá nánar um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.