Danski þjóðarflokkurinn, undir forystu Piu Kjærsgaard, er nú alfarið á móti því að nokkur meiri lán verði veitt til Íslands frá danska ríkinu, eftir að Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands neitaði að skrifa undir Icesave-lögin. Sagt er frá þessu á dönsku vefsíðunni Copenhagen Post Online.
Segir þar að ákvörðun forsetans hafi vakið mikinn ótta, ekki síst í Bretlandi og Hollandi, um að Íslendingar ætli ekki að borga erlendar skuldir sínar.
Íslendingar séu í sárri þörf fyrir erlend lán núna og séu að vonast eftir 2,5 milljörðum dollara frá Norðurlöndum, þar á meðal Danmörku, sem þegar hafi lánað Íslendingum 600 milljónir danskra króna.
Þingflokksformaður Þjóðarflokksins, Kristian Thulesen Dahl, sem er líka formaður fjárlaganefndar danska þingsins, hefur einnig tekið fyrir frekari útborganir lána til Íslands. ,,Við krefjumst þess að danska ríkisstjórnin láni Íslendingum ekkert meira fyrr en ástandið þar skýrist," segir Dahl.
Fjárlaganefndin hefur þegar samþykkt lán upp á 3,6 milljarða danskra króna til Íslands. Nú segir Dahl hins vegar að það væri ekki gáfulegt að senda meiri peninga til Íslands ef Íselndinga skorti grundvallarviljann til þess að greiða þá peninga til baka.
Samkvæmt upplýsingum úr danska fjármálaráðuneytinu hefur sú ákvörðun verið tekin að loka á meiri lán til Íslands þangað til Icesave-málið og ástandið á Íslandi skýrast.
Steingrímur J. Sigfússon er væntanlegur til Kaupmannahafnar eftir hádegið, þar sem hann mun funda með danska fjármálaráðherranum, Claus Hjort Frederiksen.