Gylfi: Stjórnin frá ef Icesave fellur

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra.
Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra. mbl.is

Haft er eftir Gylfa Magnússyni, efnahags- og viðskiptaráðherra, á vef norska dagblaðsins Dagens Næringsliv, að ríkisstjórn Íslands muni segja af sér ef þjóðin segir nei við ríkisábyrgð á Icesave-samningunum í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Á vefnum er tekið fram að ríkisstjórnin og Seðlabankinn leggi nú allt undir til þess að snúa almenningsálitinu í málinu á næstu tveimur mánuðum. Öll endurreisn efnahagslífsins á Íslandi hangi á því að málið verði klárað.

Einnig er vitnað í Má Guðmundsson seðlabankastjóra, sem segir að fólki þurfi aðeins að setjast niður og slaka á. Icesave-samningarnir boði ekki endalokin fyrir Ísland, heldur verði það miklu alvarlegra ef fólk segi nei við Icesave. Þá verði gjaldeyrishöft ekki afnumin, vextir verði áfram háir, aðgangur að alþjóðlegum fjármálamörkuðum opnist ekki, lánshæfismat Íslands verði áfram í ruslflokki, hagvöxtur verði minni og endurreisn efnahagslífsins hægist mikið. „Segi fólk já komumst við undan varanlegu áfalli. Við erum ekki í neyðarástandi ennþá," segir Már.

Í frétt DN er einnig fjallað um íslenska konu, einstæða móður, sem flutti til Noregs um áramótin. Konan, Anna Margrét Bjarnadóttir, tók dóttur sína með og vonast nú til að finna vinnu í Stafangri eða svæðinu þar í kring.

„Dóttir mín á ekki að verða skuldaþræll. Hún er saklaus og ég vil bara að hún fái að lifa góðu lífi. Það get ég ekki gefið henni á Íslandi. Margir sem ég þekki hafa flutt burt og ég vonast til að vinna starf nálægt vinum dóttur minnar frá Íslandi," segir Anna Margrét.

Anna Margrét missti vinnuna á síðasta ári og glímir við erfiða skuldastöðu. Í viðtalinu segir hún það dapurlegt að Noregur og hin Norðurlöndin stilli sér upp við hlið Evrópusambandsins og styðji ekki við bakið á Íslendingum.

Sjálf var hún meðal þeirra sem skrifuðu undir áskorun til forseta Íslands um að synja Icesave-lögunum staðfestingar.

Frétt vefútgáfu Dagens Næringsliv

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka