„Umræðan heima í Hollandi er alls ekki jafn neikvæð gagnvart Íslendingum og ég bjóst við,“ segir Carla Magnússon. Hún er hollensk en hefur verið búsett hér á landi í ellefu ár.
Hún hefur síðustu daga, í kjölfar ákvörðunar forseta Íslands að neita að staðfesta Icesave-lögin, fylgst ítarlega með umræðunni í heimalandi sínu. Hún segir að þeir sem til dæmis bloggi um fréttir í hollenskum fjölmiðlum og sýni íslenskum sjónarmiðum skilning séu mun fleiri en hinir. Það hafi að mörgu leyti komið sér á óvart því í fréttum hafi verið dregin upp önnur mynd og býsna dökk.
„Í fréttum fjölmiðla í Hollandi hefur sá misskilningur verið nokkuð áberandi að ákvörðun forsetans þýði að við ætlum ekki að standa við skuldbindingar okkar. Sumir sem hafa tjáð sig um málið á spjallsíðum hafa raunar lýst yfir ánægju með slíkt og það sé ekki ónýtt fyrir Íslendinga að eiga forseta sem hlustar á raddir fólksins. Á miðvikudagskvöldið höfðu 690 manns tjáð sig um málið á vefsetri dagblaðsins De Telegraaf og hefur væntanlega fjölgað síðan,“ segir Carla við Morgunblaðið.
„Ég hef líka séð því haldið fram að í raun sé sökin í Icesave-málinu ekki Íslendinga og Hollendingar sjálfir verði að axla nokkra ábyrgð í málinu. Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollendinga, og stofnanir sem eiga að fylgjast með fjármálalífinu í landinu hafi ekki staðið við sínar skuldbindingar og leyft Landsbankanum án eftirlits að hefja starfrækslu Icesave-reikninganna í Hollandi.
Allt þetta verði að taka inn í myndina. Svo hafa þeir Hollendingar sem hafa tjáð sig um málið, einnig haldið því fram að óréttlátt sé að sækja svo hart að Íslendingum sem raun ber vitni. Margir í Hollandi hafi til dæmis tapað miklu á falli bandaríska fjárfestingabankans Lehman Brothers og ekki sé gengið fram af sömu hörkunni við að endurheimta þá fjármuni sem þá glötuðust,“ segir Carla.