Talsverð hækkun hefur að undanförnu orðið á leigugjaldi í þjónustuíbúðum fyrir aldraða við Hrafnistu í Reykjavík. Dæmi er um að mánaðarleiga fyrir tveggja herbergja íbúð sé 242 þúsund krónur á mánuði.
Íbúðirnar eru í fjölbýlishúsi við Brúnaveg, sem er sambyggt Hrafnistuheimilinu. Íbúðirnar eru í eigu Naustavarar, dótturfélags Sjómannadagsráðs. „Auðvitað er þetta hræðilegt,“ segir Ásgeir Jónsson forstjóri Sjómannadagskráðs, aðspurður um þetta háa leigugjald. Hann segir þó ekki aðra kosti í stöðunni; leigan verði að fylgja vísitölu neysluverðs svo félagið sem á íbúðirnar rísi undir skuldum, sem er í dag um 660 milljónir króna.