Stefán Már Stefánsson lagaprófessor segir að ummæli Evu Joly staðfesti það sjónarmið sem hann og Lárus Blöndal hæstaréttarlögmaður hafa haldið fram, um að þegar um kerfishrun sé að ræða, eigi lög um tryggingarsjóði ekki við, heldur þurfi að leita annarra úrræða.
Eva Joly sagði í fréttum Ríkisútvarpsins að hún hefði rætt við höfunda tilskipunarinnar sem lögin byggðust á, og að þeir hefðu staðfest að tilskipuninni hefði aldrei verið ætlað að takast á við hrun bankakerfis heillar þjóðar.
„Þetta er sú niðurstaða sem við komumst að í einni greininni okkar sem birtist í Morgunblaðinu. Ég er auðvitað ánægður ef fleiri koma auga á þetta,“ segir Stefán í samtali við Morgunblaðið. Í greininni studdust Stefán Már og Lárus við skýrslu frönsku bankanefndarinnar sem unnin var árið 2000, árið eftir að lögum um tryggingarsjóði var breytt í Frakklandi, og gefin út snemma árs 2001.