Sakar meirihlutann um að slá á útrétta sáttarhönd

Siv Friðleifsdóttir
Siv Friðleifsdóttir Sverrir Vilhelmsson

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, telur að það hafi verið óhófleg bjartsýni að halda að stjórnarandstaðan gæti boðið samstarf um Icesave-málið í því skyni að fá betri samning, því nú væri henni núið því um nasir að hafa skipt um skoðun um þjóðaratkvæðisgreiðslu.

„Svoleiðis að forsætisráðherra vill ekki sátt heldur er að slá á útrétta sáttahönd,“ sagði Siv. Hún vitnaði til ummæla Evu Joly þess efnis að Icesave-samningurinn fæli í sér þjófnað á almannafé og að Evróputilskipunin um innistæðitryggingar hefðu aldrei átt að eiga við um kerfishrun heillar þjóðar.

Jóhanna andmælti því að meirihlutinn væri að slá á útrétta sáttarhönd og óskaði eftir því að Siv dragi þessi ummæli sín til baka. Ítrekaði hún að hún hefði ávallt verið tilbúin til slíkrar sáttar ef slíkt væri raunhæft.

Siv sagði að stjórnarandstaðan ætti að hætta að bjóða sátt og einbeita sér að því að undirbúa komandi þjóðaratkvæðagreiðslu og vinna í því að fá þjóðina til þess að hafna lögunum í því skyni að bæta samningsstöðu Íslendinga.

Jóhanna, sagði, að þótt bæði Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, og Jan Peter Balkenende, forsætisráðherra Hollands, hafi í samtölum við hana í vikunni lýst vonbrigðum með stöðu Icesave-málsins hafi þeir jafnframt lýst vilja til áframhaldandi samstarfs við íslensk stjórnvöld í þessari erfiðu stöðu sem upp væri komin.

Jóhanna sagði, að ef einhver möguleiki opnaðist til sátta bæði við þing og þjóð, sem ætti þann rétt að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu, þá væri stjórnin tilbúin til að skoða það. „Ég er tilbúin til að funda með formönnum flokkanna hvenær sem er til að fara yfir þessa stöðu," sagði Jóhanna.




 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert