Finnska fjármálaráðuneytið hefur sent frá sér tilkynningu um að lán Finna til Íslands væri bundið þeim skilmálum að Íslendingar stæðu við alþjóðlegar skuldbindingar sínar. Hluti Finnlands í samnorræna láninu til Íslendingar er 350 milljónir evra, 63,4 milljarðar króna, að því er segir í frétt Reuters.
Þá segir norski fréttamiðillinn ABC Nyheter, að Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, hafi á fundi með Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra, í Ósló í dag, haldið fast við að Ísland uppfylli skuldbindingar sínar gagnvart Bretlandi og Hollandi áður en landið fær frekari lán frá Norðurlöndunum.
Steingrímur sagði eftir fundi með Støre og Sigbjørn Johnsen, fjármálaráðherra Noregs, að Norðmenn vilji að samstarfsáætlun Íslands með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum haldi áfram, og að synjun forsetans valdi sem minnstri truflun. Þeir ætli sér ekki að láta tafir á afgreiðslu Icesave málsins hafa áhrif á lánafyrirgreiðslu frá Noregi.
ABC Nyheter hefur eftir Støre, að það sé afstaða Noregs, að Norðurlöndin eigi að halda áfram samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um efnahagsáætlun fyrir Ísland. Grundvallarskilyrði sé að Ísland standi við skuldbindingar sínar og það hafi fjármálaráðherra Íslands staðfest í dag, að Ísland muni gera.