Steingrímur sáttur við fundi

Steingrímur J. Sigfússon ræðir við fréttamenn.
Steingrímur J. Sigfússon ræðir við fréttamenn. mbl.is/Golli

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segist almennt vera sáttur við þau svör sem hann fékk frá norskum og dönskum ráðherrunum á fundum í dag og voni að greitt hafi verið úr þeirri óvissu sem upp hafði komið.

„Það er, og hefur verið, mikilvægt að góð samskipti og samvinna sé á milli íslenskra og norrænna stjórnvalda og hafa þessir fundir tryggt að svo verði áfram," er haft eftir Steingrímu í stuttri tilkynningu frá fjármálaneytinu.

Steingrímur átti fundi með fjármálaráðherrum Noregs og Danmerkur auk utanríkisráðherra Noregs, auk þess sem hann ræddi símleiðis við fjármálaráðherra Finnnlands. Í gær átti hann símafund með fjármálaráðherra Svíðþjóðar.

Tilefni fundanna var, að sögn ráðuneytisins, að upplýsa um þá stöðu sem komið hafi upp í kjölfar ákvörðunar forseta Íslands um að neita að staðfesta svokölluð Icesave-lög og vísa þeim í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá voru rædd þau áhrif sem þessi staða kynni að hafa á framgang þeirra lánasamninga sem í gildi eru á milli Íslands og Norðurlandanna, en lánin séu mikilvægur þáttur í efnahagsáætlun Íslands í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert