Bjarni: Eigum aðra kosti

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins á fundinum í Valhöll
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins á fundinum í Valhöll mbl.is/Kristinn

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir ekki rétt að Íslendingar eigi ekki annan kost en að samþykkja Icesave-lögin. Að sjálfsögðu á þjóðin það í þeirri sterku lagalegu stöðu sem Íslendingar eru í. Það stenst ekki skoðun að hér fari allt á hliðina ef lögin fái ekki framgang.

Hann segir að það sjáist á viðbrögðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. „Ef Norðurlöndin standa með okkur í þessu máli þá erum við í fínum málum. Þetta er örlagastund í samstöðu norræna þjóða – að þær standi með Íslendingum á ögurstund," sagði Bjarni á fundinum.

Bjarni vísaði í ræðu sinni í samtal sem hann átti við Jón Daníelsson, prófessor við LSE. Hann hafi talað við Jón til þess að fá sýn inn í hvað Bretar eru að hugsa. Bjarni segir að álögurnar sem eru lagðar á Íslendinga séu margfalt meiri en þær sem bresk stjórnvöld leggja á sína þegna við að bjarga sínu bankakerfi.

Bara jákvætt að losna undan samningunum

Það er bara jákvætt ef Íslendingum tekst að losna undan þessum ólánssamningum, sagði Bjarni. Sjálfstæðismenn hafi sagt allan tímann að reyna verði að fá viðsemjendur að samningaborðinu á ný. Það þurfi nýjar viðræður á nýjum forsendum. Hann segir að þingmenn Sjálfstæðisflokksins muni aldrei greiða atkvæði með ríkisábyrgð í líkingu við það sem gert er í þessu máli.

Bjarni segir að hann ásamt öllum í þingflokki Sjálfstæðisflokksins hafi leitast við að koma hreint fram í þessu máli. Sjálfstæðisflokkurinn muni einungis samþykkja að fram verði gengið með hagsmuni þjóðarinnar í huga og samkomulag myndað meðal allra. Átök, sundrung og ósætti er ekki það sem þjóðin þurfi á að halda á þessari stundu.

Bjarni segir að samflokksmenn hans hafi einhverjar gagnrýnt sig fyrir að vilja ná pólitískri samstöðu þar sem engin lagalegar forsendur séu fyrir því að Íslendingar greiði fyrir Icesave, skulda sem stofnað var til af einkabanka. Reynist ekki grundvöllur fyrir samstöðu þá styður flokkurinn það heilshugar að það fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla. Hann segist gera ráð fyrir mikilli hörku í þjóðaratkvæðagreiðslunni og eins og staðan sé nú er ekki útlit fyrir annað en að þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram. Ef samkomulag næst á milli flokka þá er það einungis á þeim grundvelli að byrjað verði algjörlega upp á nýtt og að milligöngumaður verði fenginn til að ræða við Breta og Hollendinga.

Vér mótmælum allir

Formaður Sjálfstæðisflokksins segir að allir viti að Icesave málið sé eitt stærsta ágreiningsmál sem Íslendingar hafa staðið frammi fyrir. 

Hann hvatti alla til þess að hafna lögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu og lauk ræðu sinni á orðunum: „Vér mótmælum allir."

Bjarni segir að það sé engin tilviljum að ekki er búið að ganga frá Icesave-málinu. Stjórnarandstaðan hafi lagt dag og nótt við síðasta hálfa árið við að mótmæla þessum ósanngjörnu samningum. Allt verið gert til þess að draga fram staðreyndir málsins, lagalega stöðu, framtíðarhorfur og áhrif á efnahagsmál þjóðarinnar, sagði Bjarni.

„Ég tel að við höfum náð miklum árangri og er sannfærður um að þjóðin er á okkar báti," sagði Bjarni á fjölmennum fundi í Valhöll í dag.

Bjarni segir að hann hafi ekki verið sammála framkvæmd forseta Íslands á 26. grein stjórnarskrárinnar um málskotsrétt en Ólafur Ragnar Grímsson hafi sett fordæmi árið 2004 þegar hann neitaði að skrifa undir fjölmiðlalögin.

Að  mati Bjarna eru þeir fyrirvarar sem voru fyrir í Icesave-lögunum sem samþykkt voru sl. sumar og Ólafur Ragnar skrifaði undir,  að engu orðnir eftir að Bretar og Hollendingar höfnuðu fyrirvörunum og fjármálaráðherra lagði fram nýtt frumvarp sl. haust.

Hann segir að forsetinn hafi ekki átt neinn annan kost en að hafna því að skrifa undir lögin til þess að vera samkvæmur sjálfum sér. 

Segir forsætisráðherra hafa sett Íslandsmet í afneitun

Bjarni segir að það sé búið að vera átakanlegt að fylgjast með afneitun ríkisstjórnarinnar í þessu máli og að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hafi sett Íslandsmet í afneitun á Alþingi í gær þegar fyrirhuguð þjóðaratkvæðagreiðsla varð að lögum. 

Ríkisstjórnin getur ekki varpað ábyrgðinni af Icesave frá sér. Hún á samninginn með húð og hári, sagði Bjarni. 

Verst voru þau skilaboð sem ríkisstjórnin sendi frá sér daginn sem forsetinn skrifaði ekki undir, að sögn Bjarna. Hún hafi sent þau skilaboð út í alþjóðasamfélagið að endurreisnaráætlun ríkisstjórnarinnar væri í hættu.

Bjarni var harðorður í garð ríkisstjórnarinnar á fundinum, sagði að hún hafi kosið að fara í stríð við forseta Íslands. Halda þau að það sé verið að vinna þjóðinni gagn með þessari framkomu, sagði Bjarni.

Formaður Sjálfstæðisflokksins segir að öllu hafi verið tjaldað til þess að hræða þjóðina upp úr skónum. „Hverjum kemur á óvart, að þegar forsætisráðherra og fjármálaráðherra ganga fram með þessum hætti, að venjulegt fólk bregðist við með þeim hætti að telja að það sé rétt að samþykkja lögin," sagði Bjarni.

Máli sínu til stuðnings minnti Bjarni á að bréfi forsætisráðherra til forseta hafi verið lekið til fjölmiðla og með því að leka þessu dæmalausa bréfi hafi forsætisráðherra sent Bretum og Hollendingum á silfurfati upplýsingar um hvernig hægt er að klekkja á Íslendingum.

Hann sagði að engin minnisblöð hafi lekið í fjölmiðla í Bretlandi og Hollandi. Bjarni velti því fyrir sér hvort ein skýring þess sé að  þeir hafi áhyggjur af því að þjóðir sem eru aðilar að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum séu ekki sáttar við hvernig komið er fram við Íslendinga.

Bjarni segir aðstæður nú veiti Íslendingum tækifæri til þess að koma sínum skoðunum á framfæri. Ná betri niðurstöðu í þessu máli. Á hverjum degi berist fréttir erlendis frá um að hlustað sé á málstað Íslands.

Málstað Íslands tekið

Ríkisstjórnin hefur, að sögn Bjarna, brugðist í að halda málstað íslensku þjóðarinnar á lofti. Fjölmiðlar og stjórnmálamenn hafa sýnt að þeir hafa skilning á stöðu Íslands og málstaður Íslands víða tekinn. Það að Hollendingar og Bretar hafi beitt Íslendinga kúgunum. Fræðimenn og prófessorar hafa tekið málstað Íslands.

Eva Joly segist hafa fengið það staðfest hjá höfundum Evrópureglugerðarinnar um innstæðutryggingar, sem liggur til grundvallar Icesave-deilunni, að reglugerðinni hafi aldrei verið ætlað að takast á við hrun bankakerfis heillar þjóðar. Hún hafi rætt við höfunda reglugerðarinnar og þeir staðfest þetta. Þetta er svipað sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur sagt og meirihluti þjóðarinnar er sammála, að sögn Bjarna.

Hvernig er hægt að rökstyðja það að við tökum á okkur þessar skuldbindingar fyrir einkabanka, sagði Bjarni á fundinum í Valhöll þar sem fjölmenni fylgdist með formanni Sjálfstæðisflokksins fara yfir stöðu mála í Icesave-málinu.


Fjölmenni var á fundi með Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins í …
Fjölmenni var á fundi með Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins í dag mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka