Í viðtali sem birtist í prentútgáfu Bergens Tidende í gær fer Már Guðmundsson seðlabankastjóri yfir það hvernig bankar og stjórnvöld hér á landi brugðust við þeirri örkreppu sem fjármálalífið gekk í gegnum árið 2006. Íslenskur fjármálamarkaður varð á þeim á tíma fyrir talsverðri gagnrýni, m.a. fyrir krosseignatengsl og fyrir það hvernig bankarnir veittu lán sína á milli.
Bankarnir og stjórnvöld brugðust m.a. við með því að draga úr áhættu og fara í nokkurs konar áróðursherferð. Að vissu leyti skiluðu viðbrögðin árangri, segir Már, enda opnuðust bönkunum fyrir vikið ýmsir nýir lánamarkaðir, lánshæfismat á þeim skánaði og vöxtur þeirra gat því orðið enn meiri.
Hefði átt að stoppa 2006
En í ljós átti eftir að koma að útrás og vöxtur bankanna myndi að lokum hafa skelfilegar afleiðingar fyrir þjóðarbúið, bendir Már á. Eftirá að hyggja sé auðvelt að sjá að lægðina árið 2006 hefði átt að nota til að stöðva vöxt íslensku bankanna - áður en eignir þeirra námu tífaldri landsframleiðslu eins og varð áður en bankarnir féllu.
Í viðtalinu er einnig rætt við Þorvald Gylfason, hagfræðiprófessor, sem gagnrýnir vinnubrögð við einkavæðingu íslensku bankanna. Einnig segir hann það hafa verið mistök hjá ríkinu að taka yfir 75% af Glitni.