Segist hafa 96% mætingu

Jórunn Frímannsdóttir Jensen.
Jórunn Frímannsdóttir Jensen.

Jórunn Frímannsdóttir Jensen er með tæplega 96% mætingu á fundi borgarstjórnar, samkvæmt yfirlýsingu sem hún hefur sent frá sér.

Jórunn sendi frá sér yfirlýsingu vegna fréttar Morgunblaðsins í gær um mætingar á borgarstjórnarfundi. Í fréttinni var fjallað um mætingu borgarfulltrúa á þá fundi sem þeir sátu í heild.

Yfirlýsing Jórunnar er svohljóðandi:

„Morgunblaðið birti samantekt í dag [í gær] um mætingu borgarfulltrúa á borgarstjórnarfundi. Fréttin er sett fram með afar villandi hætti.  Hið rétta er að samkvæmt samantekt skrifstofu borgarstjórnar hef ég mætt á 68 af 71 fundi, en ég var í veikindaleyfi á 4 fundum. Samkvæmt því er ég með 95,7% mætingu í borgarstjórn.

Varaborgarfulltrúar okkar gegna mikilvægu hlutverki í nefndarstörfum borgarinnar og koma oft inn á fundi borgarstjórnar með tillögur, fylgja eftir málum og svara fyrirspurnum. Ég hef hvatt þá til þess að taka virkan þátt í fundum borgarstjórnar og fylgja eftir málum sem varða störf þeirra og hef ávallt verið tilbúin að víkja sæti á meðan.

Morgunblaðið kýs að líta eingöngu til þess hverjir voru viðstaddir við lok borgarstjórnarfunda en ekki hverjir mættu á fundina. Þá má einnig skilja af fréttinni að þeir sem ekki voru við lok funda hafi alls ekki mætt á borgarstjórnarfundi. Það er villandi framsetning.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert