Sá miklu fjöldi nauðungaruppboða á fasteignum sem auglýstur er í Morgunblaðinu í dag stafar af því að þótt skuldari hafi óskað eftir frestun á nauðungarsölu, samkvæmt heimild í lögum, er uppboð auglýst. Nauðungarsalan fer hins vegar ekki fram fyrr en eftir 28. febrúar, þegar heimildir til frestunar falla úr gildi.
Sýslumennirnir á höfuðborgarsvæðinu auglýstu í Morgunblaðinu í morgun um 150 nauðungaruppboð á fasteignum. Flestar voru auglýsingarnar um upphaf uppboðs þar sem málið verður tekið fyrir á skrifstofum sýslumanna í næstu viku.
Bogi Hjálmtýsson, staðgengill sýslumannsins í Hafnarfirði, segir fjölda auglýsinga stafa af þeirri breytingu sem gerð var á lögum um frestun á nauðungarsölum í byrjun nóvember. Samkvæmt fyrri lögum hafi málin verið lögð algerlega til hliðar, þegar skuldari nýtti sér rétt til frestunar.
Lögin sem nú gilda geri hins vegar ráð fyrir að uppboð verði auglýst og tekið fyrir, þótt skuldari hafi óskað eftir frestun uppboðs. Ef hins vegar kröfuhafi óski eftir því að eignin fari til framhalds uppboðs á eigninni sjálfri frestist sú aðgerð fram yfir 28. febrúar, þegar fresturinn fellur úr gildi.
Fram kom þegar lögin voru framlengd í haust að einungis lítill hluti þeirra sem frestun nauðungarsölu tekur til hafi nýtt sér ráðrúm sem veitt var með lögunum til þess að koma fjármálum sínum í lag.
Í greinargerð með frumvarpinu var tekið fram að ekki er gert ráð fyrir frekari frestun á nauðungarsölum, eftir 28. febrúar. Allsherjarnefnd þingsins tók þó fram í nefndaráliti að frekari frestun væri ekki útilokuð, ef nauðsyn krefði.
Eigendur íbúða þurfa sem fyrr sjálfir að óska eftir framlengdum fresti og tekið er fram að frestunin gildir einungis um íbúðarhúsnæði.
Tekin verður afstaða til þeirra uppboða sem nú eru í pípunum eftir 28. febrúar en búast má við holskeflu uppboða þá, að óbreyttu. Nokkur hundruð mál eru í frestun hjá sýslumannsembættum, aðallega eignir á höfuðborgarsvæðinu.