„Ég held að það sé mjög gott og uppbyggilegt fyrir niðurstöðu málsins að leita leiða til að fá utanaðkomandi, hlutlausan milligöngumann,“ segir Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, um hugmyndir Lilju Mósesdóttur um að fá Joschka Fischer, fyrrverandi utanríkisráðherra Þýskalands, til að miðla málum í deilu Íslendinga við Breta og Hollendinga vegna Icesave-málsins.
Birgir bendir á að forsenda þess að hægt verði að fara þá leið sem Lilja nefnir, sé að samstaða ríkir um slíka lausn meðal þjóðarinnar. Stjórnarandstaðan hafi lýst sig viljuga til að stuðla að slíkri sátt.
Í undirbúningi er þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave-lögin sem forsetinn synjaði staðfestingar, og segir Birgir að ennþá bendi ekkert til að hætt verði við að fara þá leið. „En það er uppbyggilegt að leita allra leiða eins og Lilja er þarna að gera.“