Samfylkingin á Seltjarnarnesi gagnrýnir í samþykkt sem hún hefur sent frá sér, vinnubrögð við hækkun gjaldskrár bæjarfélagsins.
Hækkunin hefur í mörgum tilfellum leitt til 40-50% hækkunargjalda vegna dagvistunar barna á Seltjarnarnesi og eru leikskólagjöld nú allt að 266% hærri en í Reykjavík, segir þar. Á sama tíma sé þjónusta við börn með þörf á stuðningi vegna þroskafrávika minnkuð til mikilla muna.
Samfylkingin segir að hækkunin hafi ekki verið kynnt bæjarbúum eða starfsfólki fyrirfram og skammur fyrirvari hafi gert foreldrum ómögulegt að breyta vistunartíma barna sinna til að draga úr áhrifum hækkunarinnar.
„Samfylkingin á Seltjarnarnesi átelur þá forgangsröðun að leggja lang þyngstar byrðar á ungar fjölskyldur í stað þess að allir bæjarbúar leggi sitt að mörkum eftir tekjum og fjárhag,“ segir í ályktuninni.