Norska blaðið Aftenposten birtir í dag langa grein um Ísland bæði í blaðinu og á vefnum. Ræðir blaðið við nokkra Íslendinga sem varpa ljósi bæði á sögu landsins og Icesave-málið. Fram kemur sú skoðun hjá Styrmi Gunnarssyni, fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins, að Íslendingar verði að fara að venja sig við að líta á Norðmenn sem helstu bandamenn sína.
Styrmir segir, að peningarnir hafi náð völdum á Íslandi og upphafið að því megi rekja til þess að sett voru lög um fiskveiðikvóta á níunda áratug síðustu aldar. Þegar heimilað var að eiga viðskipti með veiðikvóta hafi orðið til kvótakóngar, rík yfirstétt á Íslandi. Í kjölfarið hafi komið annar hópur, sem varð ríkur á að reka banka.
Segir Styrmir að þessir fjármálafurstar hafi haft mikil áhrif og í raun tekið völdin í samfélaginu. Þeir sem áttu að hafa eftirlit með þeim, lögregla, dómskerfi og fjármálaeftirlit, hafi verið of valdalitlir. Bankakerfið óx og óx og þangað streymdi fé frá öllum heiminum vegna hárra vaxta.
Styrmir segir að árið 2006 hafi fyrstu vísbendingar komið um að bankarnir kynnu að hrynja en það gerðist ekki og því var haldið áfram. Undirmálslánakreppan hófst árið 2007 en héldu íslensku bankarnir áfram að bjóða hæstu vexti í heimi og að auki keyptu bankarnir hlutabréf í sömu áhættufyrirtækjunum og þeir höfðu lánað fé. Síðan varð bandaríski bankinn Lehman Brothers gjaldþrota í september 2008 og í kjölfarið féllu íslensku bankarnir eins og spilaborg.