„Eins og Georg Bjarnfreðarson, þá hefur Ísland upplifað að umheimurinn
hefur snúið baki við okkur, vegna framgöngu og viðhorfa okkar gagnvart
öðrum. Við erum líka týnd og finnum ekki staðinn sem við viljum vera
á,“ sagði séra Kristín Þórunn Tómasdóttir í útvarpsprédikun sem flutt var í Lágafellskirkju í dag. Hún ræddi um ástandið á Íslandi í dag, Icesave og Georg Bjarnfreðarson.
„Georg fann barnið í sér aftur, í gjöfunum sem voru teknar frá honum
og hann fékk ekki að taka utan af og leika sér með, og í sambandinu
við föðurinn sem honum var meinað að þekkja. Barnið komst á staðinn
sem því bar að vera á, í húsi föður síns.
Hver heldur bestu partýín? er önnur spurning sem heyrist í
Bjarnfreðarsyni. Áramótaskaupið spurði sambærilegrar spurningar. Við
Íslendingar höfum haldið góð partý – á Bessastöðum sem annars staðar –
en nú er komið að tiltekt og skuldadögum. Getum við lagt okkur fram
við að vinna að sáttum og uppbyggingu á landinu okkar, með því að
standa fyrir okkar máli en án þess að gleyma eigin ábyrgð? Þannig
komumst við þangað sem okkur ber að vera, á staðinn sem við erum
örugg, í hús föður okkar.
Í guðspjallinu eins og í sögunni um Georg Bjarnfreðarson finnum við
þroskasögu. Við vitum ekki hvernig þroskasaga Íslands mun líta út, en
við vitum að við þurfum að skrifa hana saman. Við þurfum að horfast í
augu við hvers vegna við sem þjóð flæktumst inn í markalaus og
hættuleg samskipti um peninga, auðlindir og eignir. Við þurfum að
sannfæra aðra um að okkur sé treystandi sem þjóð. Þetta verðum við að
gera með hugrekki, heiðarlegu samtali og alvöru lýðræði,“ sagði sr. Kristín Þórunn.
Sjá prédikunina í heild á vefnum tru.is.