Vliet: Ekkert réttlæti hefur enn náðst

Fulltrúar hollenskra sparifjáreigenda
Fulltrúar hollenskra sparifjáreigenda Valdís Thor

Gerard Van Vliet, talsmaður hollenskra sparifjáreigenda, segist ekki telja að réttlæti hafi náðst í Icesave-málinu. Hann segist undrast hvers vegna eftirlitsaðilar á Íslandi hafi leyft íslensku bönkunum að stofna þessa reikninga í Hollandi þó ljóst hafi verið hversu slæm staða Landsbankans hafi verið.Egill Helgason tók viðtal við Vliet í Silfri Egils í dag.

Líkt og fram hefur komið á mbl.is vilja hollenskir innistæðueigendur höfða skaðabótamál gegn Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitinu og jafnvel hollenska seðlabankanum. Vliet sagði í samtali við Morgunblaðið í október í fyrra að óskastaðan væri að geta höfðað skaðabótamál hér á landi gegn bæði seðlabanka og FME.

Van Vliet segir að hægt sé að horfa á málshöfðun út frá tveimur hliðum. Annars vegar hafi FME og Seðlabanki Íslands vanrækt eftirlitsskyldu sína. Hins vegar bendir Van Vliet á reglugerð Evrópusambandsins um mismunun en eitt lykilatriða ESB samningsins er að ekki megi mismuna á grundvelli þjóðernis og vísar þar til umræðu um að hinn íslenski tryggingasjóður innistæðueigenda eigi jafnvel forgangskröfu í bú Landsbankans.

Þá skapi það vandamál að erfitt sé að finna bæði óhlutdræga dómara og lögmenn sem ekki séu á einn eða annan hátt tengdir fjármálahruninu.

Telur hollenska seðlabankann líka ábyrgan

„Hollenski seðlabankinn vissi marga hluti sem hann segist nú ekki hafa vitað og við fáum ekki upplýsingar um samskipti hans við FME. Við báðum um þessar upplýsingar en þeir höfnuðu því. Við vonum að FME leggi þessi samskipti fram fyrir Alþingi þannig að við getum séð samskipti þeirra við hollenska seðlabankann.“ Van Vliet vísar þar í skýrslu sem hann segir að verði lögð fyrir Alþingi í lok þessa mánaðar.

Um 200 manns eru í samtökunum og segjast þau eiga samtals 25 milljónir evra inni vegna Icesave.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert