Paul Rawkins, framkvæmdastjóri hjá greiningarfyrirtækinu Fitch Ratings í Lundúnum, skrifar lesendabréf í blaðið Financial Times í dag þar sem hann útskýrir hvers vegna Fitch lækkaði lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins í ruslflokk þegar Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, synjaði Icesave-lögunum staðfestingar.
Segir Rawkins að þessi ákvörðun hafi endurspeglað það mat, að utanaðkomandi fjármögnun til að styrkja stöðu peningamála og efnahagslegar umbætur á Íslandi, hafi verið sett í uppnám með þessari ákvörðun.
Fitch hefur sætt harðri gagnrýni bæði á Íslandi og annarstaðar, fyrir að lækka lánshæfismat Íslands. Hin tvö alþjóðlegu matsfyrirtækin, Standard & Poors og Moody´s, létu sér nægja að setja Ísland á athugunarlista.
Rawkins segir, að lækkun einkunnarinnar hafi ekki byggst á mati Fitch á því hvort Íslandi beri alþjóðleg lagaleg skylda til að greiða Bretum og Hollendingum bætur vegna Icesave-reikninganna.
Fitch hafi alltaf sagt, að það skipti höfuðmáli fyrir efnahagslega uppbyggingu á Íslandi, að Icesave-málið sé leitt til lykta. Þetta sjáist á þeirri töf, sem varð á fyrstu endurskoðun íslensku efnahagsáætlunarinnar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á síðasta ári og þeirri óvissu, sem nú ríki um hvort Ísland fái viðbótarlán hjá hinum Norðurlöndunum.
Þess vegna sé ekki ljóst hvort önnur endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands fari fram vegna þess að Icesave-málið er óleyst. Án stuðnings Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og hinna opinberu lánardrottna verði staða peningamála afar ótrygg á Íslandi og afnám gjaldeyrishafta tefjist. Það grafi enn frekar undan efnahagsuppbyggingu til meðallangs tíma og það hafi aftur áhrif á lánshæfi íslenska ríkisins.