Það var hátíðarstemning í röðum stúdenta við Háskólann í Reykjavík í dag þegar þeir sóttu í fyrsta sinn tíma í nýju húsnæði skólans við Öskjuhlíð. Gengið var fylktu liði frá gamla staðnum á þann nýja þar sem fráfarandi rektor skólans, Svafa Grönfeldt tók á móti nemendum sínum.
Svafa notaði tækifærið til að kveðja nemendur og afhenti Ara Kristni Jónssyni, sem tekur við rektorsstöðunni af henni síðar í mánuðinum, verkfærið sem notað var við fyrstu skóflustungu nýja skólans.
Alls verður nýja byggingin 30 þúsund fermetrar fullbyggð en í dag voru yfir 20 þúsund fermetrar teknir í notkun þegar þrjár af fimm deildum skólans sameinuðust undir nýju þaki. Síðar á árinu munu þær deildir sem eftir sitja einnig koma á nýja staðinn.