Alain Lipietz, franskur þingmaður á Evrópuþinginu, segir það alrangt, sem haldið hafi verið fram í íslenskum fjölmiðlum, og Morgunblaðinu þar á meðal, að hann sé einn höfunda tilskipunar Evrópusambandsins frá árinu 1994 um innistæðutryggingar. Vísar hann allri gagnrýni á bug, sem fram hefur komið á hans málflutning frá íslenskum þingmönnum.
Lipietz segir það hafa komið skýrt fram í viðtali við hann í Silfri Egils á sunnudag að hann hafi verið meðal höfunda tilskipunar frá árinu 2002 um eftirlit með fjármálafyrirtækjum. Hins vegar hafi hann tekið þátt í tveimur síðustu endurskoðunum Evrópuþingsins á tilskipuninni frá 1994, sem fram fóru árin 2005 og 2009. Um höfunda fyrstu útgáfu tilskipunarinnar frá 1994 segist hann engin deili vita á.
Fram kom í skrifum stjórnarþingmannanna Björns Vals Gíslasonar og Ólínar Þorvarðardóttur í gær að Alain Lipietz hefði talað um að starfsemi Landsbankans í Bretlandi og Hollandi hefði verið í dótturfélögum en ekki sem útibú. Spurður út í þessa gagnrýni segist Lipietz aldrei hafa talað um annað en útibú, enda sé í tilskipuninni frá 1994 aðeins talað um útibú.
Björn Valur heldur því einnig fram að Lipietz hafi mögulega verið að rugla saman tveimur ólíkum tilskipunum. Þingmaðurinn franski vísar því alfarið á bug, hann hafi ekki ruglast á neinum tilskipunum og sé vel meðvitaður um efni þeirra beggja.