Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði að ríkisstjórnin hafi talið nauðsynlegt að ræða um stöðu Icesave-málsins við stjórnarandstöðuna. Þrír ráðherrar áttu fund í dag með formönnum stjórnarandstöðuflokkanna. „Þetta var mjög gott skref," sagði Jóhanna við Ríkisútvarpið.
Sagði hún að niðurstaðan hefði verið að allir flokkar kanni hvort sáttagrundvöllur sé í málinu. Hins vegar verður undirbúningi þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-lögin haldið áfram.
Jóhanna sagðist hafa ámálgað það í samtölum sínum við forsætisráðherra Breta og Hollendinga hvort möguleiki væri á að taka upp samninga að nýju en engin viðbrögð fengið við því.
Að loknum fundinum var Jóhanna spurð um viðbrögð þeirra forsætisráðherra sem hún hefur rætt við eftir synjun forseta Íslands. Sagði hún þá hafi sýnt þeirri stöðu sem upp er komin skilning, þótt þeir hafi lýst vonbrigðum með ákvörðun forsetans.
„Ég fagna því að það skuli hafa vera boðað til fundar,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, að fundinum loknum. Hann sagði að á fundinum hafi einungis verið kannað hvort grundvöllur væri til sáttar á milli stjórnar og stjórnarandstöðu um málið.
„Ég hef ekki áhuga á að taka þátt í samstöðu hérna heima fyrir á milli allra stjórnmálaflokka, ef það á að gera sömu mistökin aftur,“ sagði Bjarni. „Þannig að það þarf auðvitað að vera eitthvað efnislegt til staðar og það þarf að nálgast hlutina á nýjum forsendum.“
Aðspurður sagði Bjarni að efnislega hafi ekkert nýtt hafi verið kynnt á fundinum.