Ræddi við norræna ráðherra

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, ræddi í dag við Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, Matti Vanhanen, forsætisráðherra Finnlands, og Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, um stöðu mála hér á landi í kjölfar synjunar forseta Íslands á staðfestingu Icesave-laganna.

Áður hafði Jóhanna rætt við Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, Jan Peter Balkenende, forsætisráðherra Hollands, og á morgun er fyrirhugað samtal við Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, um þetta efni, að sögn forsætisráðuneytisins. 

Fram kemur í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu, að Jóhanna hafi í þessum viðræðum óskað eftir skilningi landanna á því aukna svigrúmi sem Ísland þyrfti til að tryggja farsælar lyktir Icesave-málsins. Ráðherrarnir hafi lýst yfir vonbrigðum með þróun mála en jafnframt yfir vilja til áframhaldandi samstarfs við íslensk stjórnvöld í þeirri erfiðu stöðu sem upp væri komin.

Ráðherrarnir sammæltust um að vera í frekari samskiptum næstu daga ef tilefni gæfust til vegna einstakra álitamála og næstu skrefa í málinu.

Jóhanna og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sitja þessa stundina á fundi með leiðtogum stjórnarandstöðuflokka í Stjórnarráðinu og ræða um Icesave-málið.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka