Ríkisstjórnin í vandræðalegri stöðu

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra í viðtali.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra í viðtali. mbl.is/Kristinn

„Það var ekki ætlun mín að vera enn að tala við ykkur um Iceave á sunnudegi," sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, við breska viðskiptablaðið Financial Times, sem segir Steingrím hafa vonast eftir því að geta byrjað að einbeita sér að efnahagslegri uppbyggingu Íslands á árinu 2010.

En ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, að synja Icevave-lögunum staðfestingar, hafi gert það að verkum að Steingrímur hafi lítið getað um annað hugsað en Icesave á nýja árinu.  

Fiancial Times segir einnig, að íslenska ríkisstjórnin hafi komist í vandræðalega stöðu vegna þeirrar samúðar, sem ákvörðun forsetans hafi vakið í garð Íslands í Bretlandi.

Þótt stjórnvöld í Lundúnum hafi brugðist reið við hafi fjölmiðlaumræðan verið jákvæð í garð andstæðinga Icesave-samninganna og lýst aðdáun á einarðri afstöðu íslenska forsetans. 

Steingrímur segist fagna stuðningi, sem Ísland hafi fengið en leggur áherslu á að samningurinn, sem Íslendingar gerðu við Breta og Hollendinga hafi verið „sá besti sem við gátum fengið á þeim tíma." 

„Fjölmiðlaumfjöllunin hefur vakið athygli á því hve þetta mál er stórt og þýðingarmikið á Íslandi," segir hann við FT. „Mótaðilar okkar áttu ef til vill í erfiðleikum með að skilja það." 

Frétt Financial Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert