Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingar, segir að mikill misskilningur hafi komið fram í máli Evrópuþingmannsins Alain Lipietz sem Egill Helgason ræddi við í Silfrinu í gær. Hann virðist standa í þeirri trú að Landsbankinn hafi rekið dótturfyrirtæki í Hollandi og Bretlandi.
Þess vegna beri Bretum og Hollendingum að ábyrgjast innistæðutryggingarnar þar sem tilskipanir ESB kveði á um að ábyrgðin falli á það land þar sem aðalstarfsemi dótturfyrirtækja fari fram, skrifar Ólína á vef sinn.
„Málið er, að öfugt við Kaupþing t.d., fór Landsbankinn aldrei að fyrirmælum um að stofna dótturfyrirtæki í Bretlandi og Hollandi. Þvert á móti var innlánastarfsemin rekin á ábyrgð bankans hér heima og þar með íslenska innistæðutryggingasjóðsins. Þetta er ástæða þess að við sitjum uppi með þetta Icesave vandamál. Enginn sambærilegur vandi er uppi vegna innlánastarfsemi annarra banka erlendis," skrifar Ólína
Með öðrum orðum: Lipietz talaði um þetta mál á kolröngum forsendum.
Fjölmiðlar hafa engu að síður haft yfirlýsinga hans eftir gagnrýnislaust. Og þetta er vandi umræðunnar í hnotskurn, segir Ólína.
Sjá nánar á vef Ólínu á Eyjunni