Ekki verður efnt til almennra kosninga um nýjan prest við Selfosskirkju. Frestur til að óska eftir kosningum leið án þess að óskað væri eftir kosningu. Væntanlegar umsóknir fara því fyrir valnefnd.
Um 1800 sóknarbörn á Selfossi óskuðu eftir því að efnt yrði til almennra kosninga um ráðningu sóknarprests í nýju Selfossprestakalli sem varð til undir lok síðasta árs eftir ákvörðun kirkjuþings um sameiningu Hraungerðis- og Selfossprestakalla. Kirkjan svaraði því til að samkvæmt starfsreglum kirkjunnar héldi starfandi sóknarprestur í prestakallinu starfinu. Í þessu tilviki er það Kristinn Ág. Friðfinnsson sem var sóknarprestur í fyrrum Hraungerðisprestakalli. Sóknarpresturinn á Selfossi hefur verið þar í afleysingum.
Biskup Íslands ákvað í staðinn að auglýsa eftir presti til starfa í Selfossprestakalli „með sérstakar skyldur við Selfosskirkju,“ eins og það var orðað í auglýsingu.
Embættið var auglýst fyrir jól og sagt frá því á vef Þjóðkirkjunnar 29. desember.
Sóknarbörn hafa hálfan mánuð til að óska eftir kosningum, frá því auglýsing er birt. Sá frestur er nú liðinn.
Umsóknarfrestur um embættið rennur út 25. janúar næstkomandi.
Kosin hefur verið níu manna valnefnd sem starfar undir forystu prófasts, sex fulltrúar eru frá Selfossi og þrír úr gamla Hraungerðisprestakalli. Hún mun reyna að ná samstöðu um ráðningu prests.