Engar viðræður um nýtt Icesave-samkomulag

Icesave skuldbindingunum mótmælt á Bessastöðum nýverið.
Icesave skuldbindingunum mótmælt á Bessastöðum nýverið. mbl.is/Ómar

Talskona hollenska fjármálaráðuneytisins segir í samtali við Reuters-fréttastofuna að ráðuneytið eigi ekki viðræðum við íslensk stjórnvöld varðandi nýtt Icesave-samkomulag.

Hún segir að hollensk stjórnvöld bíði nú eftir því hver niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar á Íslandi verði. Fram hefur komið að atkvæðagreiðslan muni í síðasta lagi fara fram 6. mars nk.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra ræddi í gær við starfsbræður sína á Norðurlöndunum um stöðu mála hér á landi í kjölfar synjunar forseta Íslands á Icesave-lögunum.

Hún ræddi jafnframt við forsætisráðherra Bretlands og Hollands. 

Jóhanna óskaði eftir skilningi landanna á því aukna svigrúmi sem Ísland þyrfti til að tryggja farsælar lyktir Icesave-málsins. Ráðherrarnir lýstu yfir vonbrigðum með þróun mála en lýstu jafnframt allir yfir vilja til áframhaldandi samstarfs við íslensk stjórnvöld í þeirri erfiðu stöðu sem upp væri komin.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert