Bæjarráð Vestmannaeyjabæjar gagnrýnir, að ekki liggi enn fyrir upplýsingar um ferðaáætlun og gjaldskrá ferjunnar Herjólfs eftir að hann fer að sigla í Landeyjahöfn en miðað er við að það gerist í byrjun júlí á næsta ári. Segir bæjarráðið að ferðaþjónustan í Eyjum verði fyrir tugmilljóna tjóni af þessum sökum.
Í bókun bæjarráðs, sem sagt er frá á eyjafréttum.is, segir að ekki sé hægt að bóka í ferðir Herjólfs eftir 1. júlí og þar með hvorki á Þjóðhátíð né Goslokahátíð.
„Fyrir all nokkru hófu ferðaskrifstofur að undirbúa ferðasumarið 2010. Vestmannaeyjar hafa vaxandi aðdráttaafl fyrir innlenda sem erlenda ferðamenn og ríkur vilji í Vestmannaeyjum til að þróa þjónustu sína áfram. Á meðan ekki liggja fyrir upplýsingar getur enginn slíkur undirbúningur átt sér stað. Upplýsingaleysið veldur Vestmannaeyjum tugmilljóna tjóni,“ segir í fundargerð bæjarráðs.