Fimm ungmennasambönd hafa sótt um að halda 13. unglingalandsmót Ungmennasambands Íslands á komandi sumri. Stjórn UMFÍ ákveður staðinn á fundi sínum 20. þessa mánaðar.
Eftirtalin félög höfðu sótt um að halda mótið þegar umsóknarfrestur rann út 10. janúar:
Ungmennasamband Borgarfjarðar, UMSB. Mótsstaður í Borgarnesi.
Ungmennasamband Vestur-Skaftafellssýslu, USVS. Mótstaður í Vík.
Héraðssambandið Skarphéðinn, HSK. Mótsstaður í Þorlákshöfn.
Ungmennafélag Akureyrar, UFA, og Ungmennasamband Eyjafjarðar, UMSE, í sameiningu. Mótsstaður á Akureyri.
Héraðssamband Þingeyinga, HSÞ. Móthald á Laugum.
Á vef UMFÍ kemur fram að aðstæður eru góðar á öllum þessum stöðum. Unglingalandsmót eða landsmót UMFÍ hafa verið haldin þar.
Héraðssamband Strandamanna hafði tekið að sér að halda mótið í ár á Hólmavík en baðst undan því á síðasta ári. Þá var því úthlutað til Héraðssambands Snæfellsness- og Hnappadalssýslu sem þar með frestaði sínu móti í Grundarfirði um ár. Ekki var hægt að ljúka framkvæmdum í Grundarfirði og hugðist HSH halda mótið þar og í Stykkishólmi. Stjórn UMFÍ féllst ekki á það og auglýsti eftir nýjum mótsstað.