Forstjóraskipti í Húsasmiðju

mbl.is/Ómar

Steinn Logi Björnsson hefur látið af störfum sem forstjóri Húsasmiðjunnar. Við starfi hans tekur Sigurður Arnar Sigurðsson. Eignarhaldsfélagið Vestia, dótturfyrirtæki Landsbankans, yfirtók Húsasmiðjuna í október.

Í samtali við mbl.is segir Steinn Logi að hann hafi fengið að vita af þessu í gær, en ákvörðunin var kynnt starfsmönnum Húsasmiðjunnar á fundi rétt í þessu. „Ákvörðunin kom mér hins vegar ekki alfarið á óvart, enda er þetta ekki óeðlileg tímasetning til að skipta um stjórnanda. Vinnu við fjárhagslega endurskipulagningu Húsasmiðjunnar er nú lokið og mér tókst að ljúka því verki.“

Á vef Vestia segir að Steinn Logi hafi stýrt þróun Húsasmiðjunnar úr hefðbundinni byggingavöruverslun í breiða lífsstílsverslun sem höfðar til sístækkandi hóps neytenda og fagmanna.

„Síðustu mánuði hefur Húsasmiðjan þó ekki farið varhluta af samdrætti í íslensku efnahagslífi og hruni á byggingamarkaði en undir forystu Steins Loga og annarra stjórnenda hafa starfsmenn félagsins brugðist við þessum erfiðu aðstæðum með afgerandi aðgerðum sem hafa þegar skilað miklum árangri þrátt fyrir minnkandi umsvif á byggingavörumarkaði. Rekstur félagsins er því í viðunandi horfi miðað við aðstæður, lausafjárstaða félagsins er góð og félagið í skilum við birgja og lánardrottna. Stjórn Húsasmiðjunnar vill nota þetta tækifæri til að þakka Steini Loga fyrir vel unnin störf í þágu félagsins og óska honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Nýr forstjóri Húsasmiðjunnar er Sigurður Arnar Sigurðsson.  Sigurður Arnar er 46 ára gamall með Cand.Oecon. próf frá Háskóla Íslands. Frá 1991 til 1997 vann Sigurður hjá KPMG við endurskoðun og síðar sem framkvæmdastjóri og eigandi fyrirtækis í matvælaiðnaði.  Árið 1997 leiddi hann stofnun raftækjaverslunarinnar ELKO hf. og gegndi stöðu framkvæmdastjóra fyrirtækisins til ársins 2000. Frá árinu 2000 til 2004 var Sigurður framkvæmdastjóri verslunarsviðs BYKO hf. Á árabilinu 2004 til 2006 gegndi hann stöðu forstjóra Kaupáss hf. en frá þeim tíma hefur hann starfað sem sjálfstæður ráðgjafi hérlendis og erlendis. Sigurður Arnar er giftur Hörpu Gunnarsdóttur sjúkraþjálfara og eiga þau saman þrjú börn.

Sigurður hefur þegar hafið störf og verður Steinn Logi honum innan handar næstu mánuði. “

Húsasmiðjan rekur 16 verslanir um allt land undir nafni Húsasmiðjunnar og sjö verslanir eða verslunardeildir undir nafni Blómavals. Þá rekur félagið Ískraft sem er heildsala á rafmagns- og raflagnamarkaði með fimm verslanir víða um land. Loks rekur Húsasmiðjan heildverslunina H.G. Guðjónsson sem sérhæfir sig í þjónustu við trésmíðaverkstæði og innlenda framleiðendur innréttinga. Húsasmiðjan starfrækir einnig tvö miðlæg vöruhús og dreifingarmiðstöð, auk  trésmiðju og rafmagnsverkstæðis. Í september 2009 störfuðu 626 manns hjá Húsasmiðjunni í 549 stöðugildum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert