Í dagbókum lögregluembætta Akraness og Vestmannaeyja er farið yfir þau mál sem hæst báru á góma í liðinni viku. Helst var það hálkan sem var að stríða Akurnesingum en alloft þurfti að hafa afskipti af fólki vegna hávaða í heimahúsum í Eyjum.
Í dagbók lögreglu Vestmannaeyja segir, að ein líkamsárás hafi verið kærð í vikunni. Hún átti sér stað um helgina. Ráðist var á karlmann á fimmtugsaldri og það án tilefnis. Fórnarlambið þurfti að leita sér aðhlynningar á sjúkrastofnun vegna nefbrots. Árásarmaðurinn var handtekinn og viðurkenndi verknaðinn.
Eitt fíkniefnamál kom upp í Vestmannaeyjum í vikunni en lítið magn af kannabisefnum fundust á karlmanni á þrítugsaldri.
Þá stal einstaklingur rússneskum rúblum úr bifreið að verðmæti fimm til tíu þúsund krónur. Talið er að hann sé á milli fjórtán og sextán ára.
Hálka olli vandræðum
Í dagbók lögreglu Akraness bær hæst, að mikil hálka myndaðist á götum bæjarins í vikunni. Meðal annars þurfti að loka Heiðarbraut um tíma en þó nokkrir ökumenn komust þá ekki leiðar sinnar vegna hálku. Einn þeirra hafði ekið á grindverk og svo virtist sem annar hefði gert hið sama, en flúið af vettvangi. Lögregla óskar upplýsinga um hann.
Einn ökumaður var stöðvaður í umdæminu um helgina og er hann grunaður um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna.
Þá var lögregla og slökkvilið sent að Asparskógum þar sem eldur logaði í dýnu á svölum íbúðarhúss. Kom í ljós að orsök eldsins var flugeldur og íbúar slökktu eldinn áður en slökkvilið kom á vettvang.
Þá var karlmaður handtekinn á skemmtistað um helgina en hann var með leikfangabyssu og hníf. Sagðist hann hafa fundið byssuna í ruslagámi, stungið henni inn á sig og gleymt henni þar.