Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur segir að kvikuinnskotið sem nú er hafið undir Eyjafjallajökli sé framhald af innskoti sem hófst í sumar. Það sé þó talsvert minna en á árunum 1994 og 1999 þegar fjallið lyftist um nokkra tugi sentímetra. Dæmi eru um að jarðhræringar í Eyjafjallajökli séu undanfari Kötlugoss.
Skjálfavirkni hefur verið að aukast í Eyjafjallajökli síðustu vikurnar, eftir rólegan tíma frá því í ágúst. Veðurstofan telur að skjálftavirknin bendi til svipaðra kvikuinnskota og urðu þarna 1994 og 1999. Virknin í ár bendi þó til þess að þetta síðasta innskot hafi verið mun minna en haustið 1999.
Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur segir, þegar hann er spurður um hugsanlegt eldgos, að Eyjafjallajökull sé virkt eldfjall sem hafi gosið að minnsta kosti tvisvar á sögulegum tíma. Þetta sé þó tiltölulega meinlaust eldfjall og hafi ekki gosið hamfaragosum. Samt sem áður sé mikilvægt að fylgjst vel með og hafa varann á, eins og áður.
Eyjafjallajökull er í næsta nágrenni við eldstöðina Kötlu í Mýrdalsjökli. „Það er merkilegt samband á milli þessarra nágranna,“ segir Páll um tengslin þar á milli. Hann bendir á að Katla hafi gosið 1823, í framhaldi af gosi í Eyjafjallajökli sem hófst 1821 og stóð með hléum í tvö ár. Þá nefnir hann að eftir hræringarnar í Eyjafjallajökli árið 1999 hafi orðið landris í Kötlu og hugsanlega einnig smágos.