Verðmæti útfluttra grásleppuafurða var meira á síðasta ári en nokkru sinni áður. Þegar einn mánuður var eftir af árinu voru verðmætin orðin hátt í milljarði meiri en allt árið á undan.
Á vef Landssambands smábátaeigenda kemur fram að útflutningsverðmæti grásleppuafurða, það er að segja saltaðra hrogna og kavíars, nam 2,3 milljörðum fyrstu ellefu mánuði liðins árs. Er það rúmlega tvöföldun frá sama tíma á árinu á undan. Verðmætin eru 920 milljónum kr. meiri en allt árið 2008.
Frakkar eru sem fyrr stærstu kaupendur á grásleppukavíar.