Ólafur Ragnar á Indlandi

Ólafur Ragnar og Dorrit skoða kennslustofu á hjólum í fátækrahverfi …
Ólafur Ragnar og Dorrit skoða kennslustofu á hjólum í fátækrahverfi í Mumbai. mynd/forseti.is

Opinber heimsókn  Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, til Indlands hófst í morgun í Mumbai en Ólafur Ragnar fer einnig til Delhi og Bangalore.

Með Ólafi Ragnari eru í för Dorrit Moussaieff forsetafrú, sem er sextug í dag, embættismenn, vísindamenn og sérfræðingar við Háskóla Íslands, forystumenn í orkumálum sem og fulltrúar ýmissa íslenskra fyrirtækja. Útflutningsráð hefur unnið að skipulagningu þess þáttar  heimsóknarinnar og er Jón Ásbergsson framkvæmdastjóri Útflutningsráðs með í för.

Upphaflega stóð til að Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, færi með forsetanum til Indlands en af því varð ekki vegna anna eftir að forsetinn synjaði Icesave-lögunum staðfestingar.

Ólafur Ragnar mun eiga fundi með frú Patibha Patil, forseta Indlands, Mohammad Hamid Ansari, varaforseta landsins, Manmohan Singh, forsætisráðherra og fleiri ráðamönnum. Þá mun Ólafur Ragnar taka við Nehru verðlaununum í Delhi. 

Fram kemur í tilkynningu frá forsetaembættinu, að  heimsóknin hófst í morgun með málþingi sem haldið var á vegum indverska viðskiptaráðsins þar sem fjallað var um  margvísleg verkefni á sviði tækni, orku og viðskipta sem íslenskir og indverskir aðilar vinna nú að. Í lok  málþingsins var undirritaður samningur milli íslenska jarðhitafyrirtækisins Reykjavik Geothermal og  indverska orkufyrirtækisins Thermax um jarðhitarannsóknir á Indlandi og samningur milli orkutæknifyrirtækisins Marorku og Unique Maritime Group á Indlandi.

Að því loknu heimsóttu forsetahjónin skóla fyrir fátæk börn þar sem áhersla er lögð á tölvuþekkingu og samfélagsfræði. Síðan fóru þau í endurhæfingarstöð þar sem fyrirtækið Össur kynnti  ramleiðsluvörur sínar og hvernig þær geta gagnast fólki sem orðið hefur fyrir slysi, glímir við sjúkdóma eða fötlun.

Í kvöld heldur ríkisstjóri Maharastra fylkis  hátíðarkvöldverð til heiðurs forseta Íslands þar sem fjöldi Íslendinga verður meðal gesta.

Forsetahjónin skoða göngugreiningarbúnað í fylgd dr. B.D. Athani, forstjóra All …
Forsetahjónin skoða göngugreiningarbúnað í fylgd dr. B.D. Athani, forstjóra All India Institute of Physcial medicine and Rehabilitation mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka